Má segja að ég sé filterinn

Ólafur Stefánsson sér um afrekshóp HSÍ sem var valinn í …
Ólafur Stefánsson sér um afrekshóp HSÍ sem var valinn í fyrsta sinn á dögunum. mbl.is/Ómar

„Það er engin sérstök krítería. Það má bara segja að ég sé filterinn, með öllum mínum kostum og göllum,“ sagði Ólafur Stefánsson um valið á handknattleiksmönnum í sérstakan afrekshóp HSÍ sem valinn var í fyrsta sinn á dögunum og æfir næstu þrjár vikurnar undir stjórn Ólafs og aðstoðarmanna hans.

Afrekshópinn skipa margir af bestu leikmönnum landsins, sem ekki tilheyra landsliðinu, en einnig óþekktari og reynsluminni menn sem Ólafur telur eiga heima í hópnum. Hópinn má sjá með því að SMELLA HÉR en þegar hefur orðið sú breyting að Adam Haukur Baumruk kom inn í stað Tandra Más Konráðssonar. Ólafur segir að það verði fleiri breytingar á hópnum og viðurkennir að leikmenn sem átt hafi skilið sæti í hópnum hafi hreinlega gleymst.

Gleymdi nokkrum leikmönnum

„Menn koma alveg inn og út úr þessum hópi. Við erum líka að prófa okkur áfram og það er enginn með fast sæti þarna. Ég gleymdi nokkrum leikmönnum og sumir verða hérna bara í stuttan tíma. Við erum bara að þreifa. Þetta er fyrsta skimun,“ sagði Ólafur.

Valur átti flesta leikmenn í upphaflega hópnum, sex talsins, en Ólafur var þjálfari Vals á þarsíðustu leiktíð. Hann segir ekkert að því að menn setji spurningamerki við þetta og hvetur fólk til að benda á leikmenn sem eigi skilið sæti í hópnum.

„Það er alveg eðlilegt. Við erum þarna með 5-6 Valsmenn en líka 5-6 úr Aftureldingu og Haukum. Það mættu örugglega vera fleiri hérna. Ef að einhverjum úr Hetti Egilsstöðum, til dæmis, finnst að gengið sé framhjá sér þá myndi ég vilja heyra í þjálfara viðkomandi. Það er fínt að fá gagnrýni, þá vitum við að við erum hugsanlega að gera eitthvað vitlaust. Það er eina leiðin til að komast að því hvernig maður á að gera eitthvað rétt. Munurinn á meistaranum og nemandanum er að meistarinn hefur gert fleiri mistök en nemandinn hefur prófað,“ sagði Ólafur.

Ef einhver er fúll má hann hringja

„Ég bið fólk að reyna að treysta minni dómgreind. Ég þekki markaðinn ekki alveg nógu vel eftir að hafa ekki verið að þjálfa í vetur en ég er með fullt af góðum mönnum til að hjálpa mér. Við erum bara að reyna að gera þetta eins vel og við getum. Ef einhver er fúll þá má hann endilega hringja. Ég reyni að svara þessu öllu. Við erum líka bara að þreifa okkur áfram og það er ekki eins og við séum að fara að spila úrslitaleik eftir tvær vikur eða eitthvað slíkt,“ sagði Ólafur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert