Stærsta sem hægt er að vinna

Alfreð Gíslason verður í eldlínunni með THW Kiel um helgina …
Alfreð Gíslason verður í eldlínunni með THW Kiel um helgina í úrslitum Meistaradeildar Evrópu í handknattleik. JONAS GUETTLER

„Þessi keppni er sú stærsta sem hægt er að vinna,“ sagði Alfreð Gíslason, þjálfari THW Kiel, á morgun leikur við ungverska meistaraliðið Veszprém í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu í handknattleik í Lanxess-Arena í Köln. Sigurliðið mætir annað hvort Barcelona eða pólska meistaraliðinu Vive Kielce í úrslitaleik á sama stað á sunnudag.

Alfreð hefur unnið keppnina tvisvar með Kiel, 2010 og 2012, og einu sinni með SC Magdeburg árið 2002. Undir hans stjórn hefur Kiel að minnsta kosti komist í undanúrslit frá árinu 2009 en Alfreð tók við þjálfun þýska meistaraliðsins sumarið 2008.

„Aðalatriðið hjá okkur er samt að vinna þýsku deildina. Það er erfiðasti titilinn að vinna þar sem keppnin er löng og ströng og tekur yfir langt tímabil. Fyrsta markmið okkar á hverju keppnistímabili er því að vinna þýsku deildina, annað er að komast til Kölnar í „final four“ helgina og þriðja markmiðið er að vinna Meistaradeildina.  Við erum ekki orðnir meistarar ennþá þótt útlitið sé ágætt, við erum komnir til Kölnar og síðan ræðst það um helgina hvort við náum þriðja markmiðinu,“ sagði Alfreð í samtali við mbl.is í dag.

„Við verðum fyrst og fremst að einbeita okkur að leiknum á morgun áður horft verður lengra. Ég met okkur eiga helmingsmöguleika gegn Vesprém. Í hinni viðureign undanúrslitanna þá tel ég Barcelona sigurstranglegra gegn Kielce,“ segir Alfreð.

Kiel vann Veszprém í undanúrslitum fyrir ári síðan, 29:26, en tapaði síðan í úrslitaleik fyrir Flensburg, 30:28.

„Einhvern veginn þá lendum við oft gegn Veszprém í þessari keppni. Hingað til höfum við náð að halda aftur af þeim en það verður erfiðara með hverju árinu,“ segir Alfreð Gíslason, þjálfari þýska meistaraliðsins Kiel.

Viðureign Kiel og Veszprém hefst klukkan 16 á morgun en klukkan 13.15 leiða Barcelona og Vive Kielce saman hesta sín og þar verður Guðjón Valur Sigurðsson í stóru hlutverki hjá Barcelona.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert