Eitthvað sem aldrei gleymist

Hörður Fannar Sigþórsson í dauðafæri.
Hörður Fannar Sigþórsson í dauðafæri. mbl.is/Haraldur Guðjónsson

„Nú er það bara gamla rútínan sem tekur við í Færeyjum,“ sagði handknattleiksmaðurinn Hörður Fannar Sigþórsson í samtali við Morgunblaðið, en hann fór óvænt til Þýskalands síðasta vetur og tók slaginn með Aue í B-deildinni þar í landi.

Rúnar Sigtryggsson þjálfar liðið, lenti snemma í meiðslavandræðum og datt þá í hug að athuga stöðuna á sínum fyrrum liðsfélaga hjá Akureyri.

„Það var ekki hægt að sleppa svona tækifæri, 32 ára gamall. Rúnar þekkti vel til mín og vissi hvað hann væri að fá. Ég hef ekki breyst neitt mikið á undanförnum árum,“ sagði Hörður léttur. Hann var samningsbundinn Kyndli í Færeyjum en fékk sig lausan eftir tvo leiki og fór til Aue í október. Hann samdi þá til áramóta, en stóð sig vel og endaði á því að klára tímabilið. Liðið endaði í sjötta sæti deildarinnar sem er besti árangurinn í sögu félagsins.

„Ég gekk hart eftir því að fá tækifæri til að fara, enda leit ég á þetta sem síðasta möguleikann til að prófa eitthvað svona. Konan hleypti mér af stað líka svo það var ekkert til fyrirstöðu,“ sagði Hörður, sem skildi konu sína, Fríðu Petersen, og dreng eftir í Færeyjum og settist að í Íslendinganýlendunni hjá Aue.

Glæsileg sambúð með Bubba

„Það var mjög þægilegt að koma inn í lið með mörgum Íslendingum. Ég bjó þar með Sveinbirni [Péturssyni, markverði], það var glæsileg sambúð okkar á milli,“ sagði Hörður. Ásamt Bubba eins og hann er jafnan kallaður spila þeir Sigtryggur, sonur Rúnars þjálfara, Árni Þór bróðir hans og Bjarki Már Gunnarsson með Aue. Hörður þekkti þá flesta frá tíma sínum með Akureyri og segist hann hafa notið sín vel í Þýskalandi. „Þetta var mjög skemmtilegur tími þarna, svona stóra gulrótin sem maður er alltaf að bíða eftir. Þetta er eitthvað sem ég gleymi aldrei“ sagði Hörður.

Hann hefur nú samið á ný við Kyndil til eins árs, en það er sigursælasta félag Færeyja. Konan hans spilar einnig handbolta og lék um tíma með KA/Þór hér á landi. En hvað tekur nú við? „Við erum ekkert farin að hugsa heim, ekki þetta árið allavega. En maður veit aldrei hvað gerist, það kom greinilega í ljós á síðasta tímabili,“ sagði Hörður Fannar Sigþórsson við Morgunblaðið.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert