Arnar Snær hetja Fram

Ólafur Ægir Ólafsson með skot í leiknum við Gróttu í …
Ólafur Ægir Ólafsson með skot í leiknum við Gróttu í kvöld. mbl.is/Golli

Arnar Snær Magnússon var hetja Fram-liðsins þegar hann tryggði því sigur, 23:22, á heimavelli í kvöld eftir æsilegar lokamínútur í leik við Gróttu í Olís-deild karla í handknattleik. Gróttumenn, sem höfðu unnið upp sjö marka forskot Fram fengu tækifæri til þess að tryggja sér sigurinn en Styrmir Sigurðarson skaut framhjá marki Fram þegar um 10 sekúndur voru eftir. Framarar brunuðu upp í sókn og Andri Snær skoraði úr hægra horni eftir mikinn darraðadans.

Fram var marki yfir, 13:12, í hálfleik og var um skeið með sjö marka forskot, 20:13. Grótta er áfram neðst með tvö stig eins og Víkingur en Fram hefur sex stig eftir sjö leiki.

Fyrri hálfleikur var jafn. Grótta hafði frumkvæðið framan af en Fram-liðið náði að nýta sér liðsmun á síðustu mínútum hálfleiksins til þess að vera með eins marks forskot í hálfleik, 13:12. Sóknarleikur beggja liða var stirðbusalegur. Flest mörkin voru skoruð eftir hröð upphlaup og vítaköst sem fengust eftir hröð upphlaup og opnanir sem þeim fylgdi. Varnarleikur beggja var nokkuð góður en engu að síður má gera kröfu um öflugri sóknarleik. Finnur Ingi Stefánsson hélt sóknarleik Gróttu upp í fyrri hálfleik með sjö mörk en ábyrðin dreifðist meira hjá Fram-liðinu.

Fram byrjaði síðari hálfleik af krafti og náði fjögurra marka forsoti, 16:12, eftir um sex mínútur. Sóknarleikur Gróttu var áfram erfiður gegn framliggjandi vörn Fram-liðsins auk þess sem sem Valtýr Már Hákonarsonar var sterkur í markinu. Grótta skoraði ekki fyrsta mark sitt í síðari hálfleik fyrr en eftir 12 mínútur að Finnur Ingi minnkaði muninn í 17:13. Fram náði sjö marka forskoti, 20:13, áður en Árni Benedikt Árnason klóraði í bakkann með fjórtánda marki Gróttu eftir tæplega 17 mínútna leik í síðari hálfleik. Gunnar Andrésson, þjálfari Gróttu, reyndi hvað hann gat til þess að vekja sína  menn.  Og það tókst aðeins því átta mínútum fyrir leiksloka var munurinn orðinn þrjú mörk, 21:18, eftir að Gróttu hafði tekist að færa sér liðsmun í nyt.  Finnur Ingi jafnaði metin í 22:22 eftir mikla baráttu þegar 1,45 mínútur voru eftir. Eftir það stóð í stappi. Gróttumenn fengu tækifæri til þess að skora sigurmarkið en Styrmir Sigurðsson skaut framhjá þegar 10 sekúndur voru eftir og Arnar Snær var hetjan sem bjargaði naumum sigri Fram-liðsins.

Fylgst varmeð leiknum í beinni textalýsingu á mbl.is. 

Fram 23:22 Grótta opna loka
60. mín. Styrmir Sigurðsson (Grótta) skýtur framhjá
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert