Við verðum að stjórna hraðanum

Karen Knútsdóttir fyrirliði íslenska landsliðsins.
Karen Knútsdóttir fyrirliði íslenska landsliðsins. mbl.is/Ómar

Íslenska landsliðið í handknattleik kvenna hefur þátttöku í undankeppni Evrópumeistaramótsins í handknattleik í dag þegar það mætir franska landsliðinu í Antibes í suðurhluta Frakklands.

„Við erum vel upplagðar og einbeittar. Höfum æft vel í vikunni og erum tilbúnar að leggja allt í sölurnar,“ sagði Karen Knútsdóttir, fyrirliði íslenska landsliðsins, í samtali við Morgunblaðið í gær.

Karen segir að þrátt fyrir stuttan undirbúning, landsliðið kom saman á mánudaginn í Frakklandi, þá hafi æfingar gengið vel. „Við þekkjumst vel og erum ekki lengi að spila okkur saman. Við höfum æft saman tvisvar á dag í vikunni og unnið vel saman. Það er aldrei nægur tími þegar landsliðið kemur saman en við erum vanar að einbeita okkur vel að þeim verkefnum sem við erum í hverju sinni,“ sagði Karen sem er ánægð með að vera komin í íslenska landsliðið á nýjan leik eftir að hafa orðið af landsleikjum í vor vegna meiðsla.

„Ég er í fínni æfingu um þessar mundir og er full eftirvæntingar að taka þátt í þeim tveimur leikjum sem eru framundan. Ég nýt þess alltaf að leika fyrir íslenska landsliðið. Það gefur manni aukakraft,“ segir Karen sem þrátt fyrir ungan aldur hefur árum saman verið leiðtogi landsliðsins utan vallar sem innan.

Sjá allt viðtalið við Karen í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert