„Þeir voru einfaldlega betri“

Sverre Andreas Jakobsson, þjálfari Akureyrar, var ósáttur eftir tap kvöldsins …
Sverre Andreas Jakobsson, þjálfari Akureyrar, var ósáttur eftir tap kvöldsins gegn Gróttu. Eva Björk Ægisdóttir

Sverre Jakobsson, þjálfari Akureyrar í Olís-deild karla í handknattleik, var vitaskuld svekktur eftir 27:21 tap liðsins gegn Gróttu í kvöld.

Það er sama undir hvaða kringumstæðum þú ræðir við Sverre Andreas Jakobsson, þjálfara Akureyrarliðsins í handbolta. Það geislar einhvern veginn af honum og í kvöld var engin undantekning á því þrátt fyrir að lið hans hafi fengið skell gegn nýliðum Gróttu. Grótta kom norður og vann sannfærandi sigur, 27:21, í Olísdeild karla.

<br/>

Sverre tók strax undir að leikurinn hafi verið erfiður fyrir hans menn. ‚‚Þetta var mjög erfitt í kvöld en það átti ekki að koma okkur neitt á óvart. Gróttumenn voru bara betri en við og keyrðu á okkur. Þeir voru mjög áræðnir og gáfu aldrei eftir. Við vorum með um tuttugu glataða bolta og gáfum þeim mörg auðveld mörk. Staðan var 7:7 og þá hrundi þetta hjá okkur. Við áttum ágæta spretti í seinni hálfleiknum en náðum aldrei að komast nógu nálægt þeim. Það var fyrst og fremst arfaslakur fyrri hálfleikur sem fór með þetta.‘‘

<br/>

Hann bætti við ‚‚Ég tek fulla ábyrgð á þessu tapi. Það er klárt að ég hef ekki náð að peppa liðið nógu vel upp. Við vorum búnir að spila vel síðustu tvo og hálfan leik en það er ekki nóg og við verðum að sýna stöðugleika og taka öll verkefni með sömu alvörunni.‘‘

<br/>

Spurður um hugsanlegt vanmat sagði Sverre ‚‚Ef það hefur verið þá erum við að gera eitthvað stórkostlega rangt í andlegum undirbúningi. Við vorum nú bara tveimur stigum ofan við Gróttu svo það hefði ekki átt að vera. Hugsanlega voru menn að ofmeta getu sína eftir síðustu leiki. Andlegi þátturinn verður að funkera rétt, annars getur farið illa.‘‘

Nú spilaði Ingimundur stóra rullu í sóknarleiknum og stóð sig vel. Hvernig kom það til?

,,Þetta var alveg undirbúið þar sem Sigþór var tæpur. Við misstum hann út strax í upphafi og Diddi leysti sitt hlutverk virkilega vel. Því miður dugði það skammt og það er sérlega slæmt að tapa hér á heimavelli. Við virðumst síður finna taktinn hér heima og það er bara eitthvað sem við þurfum að vinna í. Hver leikur er mikilvægur og við vitum að liðið þarf að hafa rosalega mikið fyrir hlutunum, sama við hvern við spilum‘‘ sagði Sverre að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert