Stefnir tvímælalaust í rétta átt

Alfreð Örn Finnsson þjálfari Vals.
Alfreð Örn Finnsson þjálfari Vals. mbl.Golli

„Mér finnst mörg liðanna í deildinni vera vel mönnuð og fyrir vikið er lítill munur á milli efstu og neðstu liða deildarinnar,“ sagði Alfreð Örn Finnsson, þjálfari kvennaliðs Vals, spurður hvernig honum þyki keppnin í Olís-deild kvenna hafa verið það sem af er keppnistímabilinu en um þessar mundir er rétt rúmlega þriðjungur deildarkeppninnar að baki.

Aðeins munar sex stigum á efsta liðinu og því sem er í sjöunda sæti en alls eru 14 lið í deildinni þetta keppnistímabilið.

„Svo ég taki Valsliðið sem dæmi þar sem við erum með lið sem er um miðja deildina þá verðum við að vera fullkomlega á tánum í hverri viðureign ef ekki á illa að fara,“ segir Alfreð Örn sem tók við þjálfun Valsliðsins í febrúar á þessu ári eftir að hafa verið þjálfari hjá Storhamar í norsku úrvalsdeildinni og fleiri liðum um nokkurra ára skeið.

Talsverð fjölbreytni

„Fylkisliðið er annað lið sem ég get nefnt sem dæmi. Þótt það sé neðarlega í deildinni og hafi aðeins unnið tvo leiki af níu þá hefur það ekki tapað neinum leik með miklum mun. Það er stutt á milli í þessu.

Mér finnst mörg liðin leika vel auk þess sem fjölbreytileikinn er talsverður eins og til að mynda í varnarleiknum. Þá er hraðinn talsverður í sóknarleiknum. Þjálfararnir eru greinilega að leggja sig fram ásamt leikmönnum að reyna eitthvað nýtt og krydda tilveruna. Ég er að mörgu leyti ánægður með deildarkeppnina til þessa,“ sagði Alfreð Örn og telur engan vafa leika á að breiddin í leikmannahópnum í deildinni sé hægt að bítandi að aukast.

Sjá allt viðtalið við Alfreð Örn í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert