Kristín fór hamförum á Hlíðarenda

Kristín Guðmundsdóttir sækir að vörn Hauka í kvöld.
Kristín Guðmundsdóttir sækir að vörn Hauka í kvöld. mbl.is/Sigurgeir

Valur sigraði Hauka, 27:24, í Vodafonehöllinni í Olís-deild kvenna í handknattleik í kvöld. Með sigrinum komst Valur upp að hlið Hauka í 4. sæti deildarinnar með 18 stig. Valsstúlkur hafa leikið 10 leiki en Haukar 11.

Fyrri hálfleikur var jafn og spennandi. Gestirnir úr Hafnarfirði byrjuðu leikinn betur og komust í 3:1. Valsstúlkur létu það ekki á sig fá og breyttu stöðunni í 7:5. Varnarleikur heimastúlkna var góður á þessum kafla og Berglind Íris Hansdóttir varði vel í markinu.

Valur hafði undirtökin það sem eftir lifði hálfleiks en gestirnir voru þó aldrei langt undan. Haukar náðu að jafna leikinn í stöðunni 12:12 á síðustu mínútu hálfleiksins. Valur skoraði síðasta mark hálfleiksins, þegar Kristín Guðmundsdóttir kom boltanum í netið eftir laglegt samspil við Evu Björk Hlöðversdóttur. Staðan því 13:12 fyrir Val að loknum fyrri hálfleik.

Haukar byrjuðu síðari hálfleik betur og komust yfir, 17:16, eftir sjö mínútna leik í hálfleiknum. Í kjölfarið fylgdi hræðilegur kafli hjá gestunum þar sem þær skoruðu ekki í 10 mínútur og Valur skoraði fimm mörk í röð.

Þar með voru úrslitin nánast ráðin en Valur hélt nokkurra marka forskoti sínu það sem eftir lifði leiks og sigraði að lokum, 27:24.

Kristín Guðmundsdóttir fór hamförum í liði Vals en hún skoraði 13 mörk. Berglind Hansdóttir stóð sig einnig frábærlega en hún varði 14 skot. Í liði Hauka var Maria De Silve atkvæðamest með sex mörk. Elín Jóna Þorsteinsdóttir varði 7 skot í markinu.

Valur 27:24 Haukar opna loka
60. mín. Leik lokið Sterkur sigur Vals.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert