„Við fengum blóð á tennurnar“

Alfreð Örn Finnsson var ánægður í kvöld.
Alfreð Örn Finnsson var ánægður í kvöld. mbl.is/Eva Björk

Alfreð Örn Finnsson, þjálfari Vals, var ánægður eftir að hans Hlíðarendaliðið sigraði Hauka, 27:24, í Olís-deild kvenna í handknattleik í kvöld. Valur náði þar með Haukum að stigum en bæði lið eru með 18 stig í 4. - 5. sæti deildarinnar eftir leikinn.

„Þetta var liðssigur. Við spiluðum þétta og góða vörn og Berglind var góð þar á bak við. Síðan voru margar sem létu að sér kveða í sókninni,“ sagði Alfreð við mbl.is eftir leikinn í kvöld.

„Kristín var auðvitað frábær. Það er gull þegar hún skorar og er að hitta vel en hún spilaði frábærlega í dag,“ sagði Alfreð aðspurður hvort það væri ekki gott að hafa leikmann eins og Kristínu Guðmundsdóttur í sínu liði. Kristín fór hamförum í leiknum, skoraði 13 mörk.

Í stöðunni 17:16 fyrir Hauka í upphafi síðari hálfleiks skelltu heimastúlkur í Val í lás og Haukar skoruðu ekki mark í 10 mínútur. Valur skoraði hins vegar fimm mörk og gerði nánast út um leikinn. „Mér fannst við ná að þétta okkur betur og við fengum blóð á tennurnar. Við mættum þeim vel í vörninni og Berglind varði vel þar fyrir aftan og þetta small bara.“

Alfreð segir að Valsstúlkur geti ekki farið á flug þó gengi liðsins sé gott um þessar mundir. „Þetta er svo ógeðslega jafnt að maður má ekki tapa leik, ég fæ hnút í magann við tilhugsunina. Þetta er búið að þróast vel hjá okkur. Þetta hefur verið skemmtilegur tími undanfarin og gengið vel,“ sagði Alfreð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert