Bæði leikmenn og þjálfarar brugðust

Elíasbet Gunnarsdóttir og Stefán Arnarson.
Elíasbet Gunnarsdóttir og Stefán Arnarson. Árni Sæberg

„Þetta var arfaslakt hjá okkur í kvöld,“ sagði Stefán Arnarson eftir stórt tap Fram gegn Gróttu í toppslag Olísdeildar kvenna, sem endaði 31:19, Gróttu í vil.

 „Íþróttaleikir þróast stundum svona og það er alveg sama hvert við lítum, ekkert gekk upp. Fyrir þennan leik vorum við búin að vinna átta leiki í röð í deildinni en svona er þetta bara stundum,“ sagði heldur niðurdreginn þjálfari Fram, Stefán Arnarson í samtali við Morgunblaðið eftir leik.

Stefán harðneitaði að notast við þá afsökun að þreyta hafi verið í liðinu, þrátt fyrir erfitt ferðalag Framara til Rúmeníu, þar sem liðið lék í Evrópukeppninni á laugardaginn. „Nei, við ætlum ekkert að væla yfir því. Við viljum vera í Evrópukeppninni og þola það álag sem fylgir þeirri keppni. Við vorum bara að leika ömurlega í kvöld og mættum einfaldlega ekki til leiks.“

„Skýringin liggur bara hjá öllum sem koma að liðinu. Leikmenn og þjálfarar stóðu sig bara ekki vel og því fór sem fór. Við byrjum leikinn illa og klúðrum einhverjum sex dauðafærum. Grótta refsar okkur fyrir þetta klúður og þetta var brekka allan tímann,“ sagði Stefán.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert