Einn besti varnarleikur okkar í vetur

Guðmundur Hólmar Helgason og félagar léku í bláum varabúningum í …
Guðmundur Hólmar Helgason og félagar léku í bláum varabúningum í kvöld, þegar þeir rúlluðu yfir Aftureldingu. mbl.is/Styrmir Kári

„Það er rosalega gott að hafa svarað svona fyrir síðasta leik, sem var hörmulegur af okkar hálfu,“ sagði Guðmundur Hólmar Helgason sem átti mjög góðan leik í vörn og sókn fyrir Val í kvöld þegar liðið vann Aftureldingu, 27:19, í Olís-deild karla í handbolta.

Valsmenn höfðu tapað afar óvænt fyrir ÍR í síðasta leik en það var aldrei spurning hvernig færi í kvöld.

„Við mættum dýrvitlausir til leiks núna, spiluðum mjög góða vörn og ég er heilt yfir mjög sáttur við leikinn. Við höfum rætt það undanfarið og vitum alveg af því að ef við erum ekki 110% þá er stutt í skítinn. Við vissum líka að Afturelding gefst aldrei upp. Þeir geta lent 6-7 mörkum undir og samt náð í stig. Þess vegna lögðum við mikla áherslu á það í seinni hálfleik að gefa ekkert eftir,“ sagði Guðmundur.

Hlynur Morthens varði yfir 20 skot í marki Vals en hann lék fyrir aftan firnasterka vörn sem neyddi Aftureldingu í erfið skot.

„Hlynur var auðvitað frábær, og varði nokkra góða bolta, en það helst í heldur við góða vörn. Við vorum búnir að skoða þeirra sókn mjög vel og vissum hvernig við myndum bregðast við. Við pössuðum línuna þeirra, sem þeir hafa verið að skora mikið af, það var mjög góður talandi í okkur, menn tóku vel á því, kláruðu brotin sín, og þetta var einn besti varnarleikur sem við höfum sýnt í vetur,“ sagði Guðmundur, og litlu máli virtist skipta hverjir voru inná hverju sinni hjá Val í kvöld:

„Menn þekkja sínar stöður og hvort sem þeir byrja eða koma inná eða hvað, þá eru þeir klárir. Alla vega í þessum leik. Þetta var ekki svona síðast, og þetta sýnir bara hvað hugarfarið skiptir gríðarlega miklu máli þegar út í leikinn er komið,“ sagði Guðmundur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert