Íslendingatríóið fagnaði sigri

Ernir Hrafn Arnarson, Emsdetten, i uppstökki.
Ernir Hrafn Arnarson, Emsdetten, i uppstökki. Ljósmynd/tvemsdetten.com

Íslendingatríóið hjá Emsdetten í Þýskalandi fagnaði sigri í gærkvöldi þegar liðið vann Rimpar, 27:25, á heimavelli í þýsku 2. deildinni í handknattleik. Emsdetten færðist upp í sjöunda sæti deildarinnar með þessum sigri sem Íslendingarnir þrír tóku þátt í.

Oddur Gretarsson skoraði fjögur af mörkum Emsdetten, Ernir Hrafn Arnarson, fyrirliði, skoraði í þrígang og Anton Rúnarsson skoraði tvö mörk.

Rúnar Sigtryggsson þjálfari EHV Aue varð að sætta sig við tap í heimsókn ASV Hamm, 23:21, en við tapið féll Aue niður í áttunda sæti deildarinnar. Árni Þór Sigtryggsson skoraði eitt mark fyrir Aue en Bjarki Már Gunnarsson komst ekki á blað. Sveinbjörn Pétursson stóð í marki liðsins. Sigtryggur Daði Rúnarsson er meiddur og verður frá keppni næstu mánuði eins og greint var frá á dögunum.

Fannar Þór Friðgeirsson og samherjar í Eintracht Hagen féllu niður í 18. sæti 2. deildar þegar þeir töpuðu fyrir Coburg, 33:26. Fannar Þór skoraði ekki mark að þessu sinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert