Fyrri hálfleikur og yfirtalan felldi okkur

„Byrjunin hjá okkur var slæm eins og stundum áður gegn Gróttu. Þær tóku hressilega á okkur og um skeið þá lék Gróttuliðið svo hratt í sókninni að ég hélt að það væri komið nýtt blóð í leikmenn liðsins," sagði Alfreð Örn Finnsson, þjálfari Vals, eftir tveggja marka tap fyrir Íslandsmeisturum Gróttu, 23:21, í Olís-deild kvenna í handknattleik í  Valshöllinni í kvöld.

Valur var fimm mörkum undir hálfleik, 13:8, og mátti þakka fyrir að vera ekki tíu mörkum undir. Snemma í síðari hálfleik var forskot Gróttu sex mörk, 15:9. Þá fór Valsliðið að bíta frá sér og tókst að jafna metin.

„Síðari hálfleikur var góður og allt í einu staðan orðin jöfn eftir að leikmenn ákváðu að hreyfa sig og leika eins og þær geta best. Við vorum komin í lykilstöðu rúmum fimm mínútum fyrir leikslok, marki yfir. Það var grátlegt að fá ekki meira út úr leiknum á lokakaflanum, ekki síst þar sem við vorum manni fleiri um skeið. Ég man ekki eftir kafla hjá okkur í vetur þar sem við höfum ekki skorað manni fleiri," sagði Alfreð og bætti við. 

„Eftir á að hyggja þá er það slakur fyrri hálfleikur og að okkur tókst ekki að nýta yfirtölunum í lokin sem okkur svíður þegar litið er til baka. 

Grótta er með besta lið landsins og engin skömm að tapa fyrir því. En þegar maður finnur blóðbragðið þá langar mann að klára dæmið," sagði Alfreð Örn Finnsson.

Nánar er rætt við Alfreð Örn á meðfylgjandi myndskeiði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert