Stundum gerist þetta bara svona

Stefán Arnarson, þjálfari Fram.
Stefán Arnarson, þjálfari Fram. mbl.is/Eggert

Stefán Arnarson, þjálfari Fram, var vitaskuld ánægður eftir að Fram sigraði Val, 22:19, í 26. og síðustu umferð Olís-deildar kvenna í handknattleik. Fram hafnaði í 3. sæti deildarinnar og mætir ÍBV í 8-liða úrslitum um Íslandsmeistaratitilinn.

„Þegar 25 mínútur eru eftir er staðan 15:10 fyrir Val. Við fáum fjögur mörk á okkur eftir það og með það er ég ótrúlega ánægður. Varnarleikur og markvarsla var virkilega góð,“ sagði Stefán við mbl.is eftir leikinn í Safamýri í kvöld.

Valur skoraði fjögur fyrstu mörkin í síðari hálfleik og náði fimm marka forskoti. Þá tók Stefán leikhlé og Fram vann síðustu 25 mínútur leiksins 12:4. Þjálfarinn kveðst þó ekki hafa sagt neitt sérstakt í leikhléinu umtalaða:

„Ekki neitt. Stundum gerist þetta bara svona. Ég held að leikmenn hafi bara áttað sig á því að við gátum betur og brugðumst við því. Annars var ég mjög ánægður með að vinna og halda Valsliðinu í 19 mörkum og fjórum síðustu 25 mínúturnar.“

Fram mætir ÍBV, sem hafnaði í 6. sæti deildarinnar, í úrslitakeppninni sem hefst eftir viku. Stefán telur að það verði verðugt verkefni. „Mér líst mjög vel á það. Þær eru búnar að vinna okkur tvisvar í vetur þannig að það verður verðugt verkefni. Þær eru líklegri til að fara í undanúrslit, svo kemur bara í ljós hvað gerist.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert