Hrikalega stolt af mínu liði

Hrafnhildur Ósk Skúladóttir, þjálfari ÍBV.
Hrafnhildur Ósk Skúladóttir, þjálfari ÍBV. mbl.is/Eva Björk

Hrafnhildur Ósk Skúladóttir, þjálfari kvennaliðs ÍBV var auðvitað svekkt í leikslok eftir 25:21 tap liðsins gegn Fram í átta liða úrslitum Olísdeildar kvenna í handbolta. Þessi mikla keppniskona tók við liði ÍBV fyrir tímabilið og segist vera afskaplega stolt af sínum stelpum, þrátt fyrir tap.

„Ég upplifi þetta þannig að ég hefði ekki getað beðið mínar stelpur um meira. Baráttan og viljinn var algjörlega til fyrirmyndar en því miður dugði það ekki til. Að því sögðu, þá er þetta samt rosalega svekkjandi. Við ætluðum okkur svo mikið í vetur en þetta er niðurstaðan.“

ÍBV varð fyrir miklum skakkaföllum fyrir úrslitakeppnina, þar sem lykilleikmenn liðsins meiddust. Hrafnhildur viðurkennir að slík óheppni sé í besta falli óþolandi.

„Þetta er hrikalega ergjandi. Við leggjum á okkur alla þessa vinnu og erum svo þunnskipaðar á ögurstundu. Þetta er í raun það sem ég sagði í byrjun, að það lið sem sleppur best við meiðsli mun að öllum líkindum standa uppi sem sigurvegari. Þetta eru engir smá burðarásar sem við missum í Veru og Gretu en svona er þetta bara.“

Hrafnhildur ber dvölinni í Vestmannaeyjum góða sögu og er ekkert að hugsa sér til hreyfingar „Við erum rosalega ánægð í Eyjum. Liðið og allt saman sem tengist liðinu er til fyrirmyndar og það stendur ekkert annað til en að vera áfram úti í Eyjum,“ sagði Hrafnhildur að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert