Valsmenn kjöldregnir að Varmá

Pétur Júníusson, Aftureldingu, og Valsarinn Guðmundur Hólmar Helgason.
Pétur Júníusson, Aftureldingu, og Valsarinn Guðmundur Hólmar Helgason. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Aftureldingarmenn kjöldrógu Valsmenn að Varmá í dag í dag í fjórða undanúrslitaleik liðanna á Íslandsmóti karla í handknattleik í dag, 29:16. Þar með kemur til oddaleik milli liðanna um sæti í úrslitum Íslandsmótsins í Valshöllinni á þriðjudagskvöldið.  Eftir sveiflurnar milli tveggja síðustu leikja liðanna er ómögulegt að segja hvað boðið verður upp á þriðjudaginn.

Staðan í hálfleik í dag var 15:6, Aftureldingu í hag og segja má að úrslitin hafi þá þegar verið ráðin eins í þriðja leik liðanna á fimmtudagskvöldið þegar Valsmenn voru með10 marka forskot eftir fyrri hálfleik.

Ljóst var  frá fyrstu mínútu leiksins að leikmenn Aftureldingar ætluðu sér ekki í sumarfrí, að minnsta kosti ekki nema fullreynt væri á liðið. Vörnin var frábær frá fyrstu mínútu. Hún sló öll vopn úr höndum Valsmanna strax í upphafi. Pétur Júníusson og Jóhann Jóhannsson fóru á kostum í miðri vörninni og Gunnar Malmquist hélt gömlum sveitunga sínum frá Akureyri, Geir Guðmundssyni, niðri. Geir sást ekki og kom helst ekki skoti á markið. Geir var umsvifamikill í annarri og þriðju viðureign liðanna.  Davíð Svansson, marvörður Aftureldingar, var traustur og tók sín skot, alls 10 í fyrri hálfleik.

Óskar Óskarsson, þjálfari Vals, tók tvö leikhlé í fyrri hálfleik en þau breyttu engu. Leikmenn hans voru hreinlega kýldir kaldir. Þeim fell allur ketill í eld, jafn í vörn sem sókn. Mikk Pinnonen, sem átti hreint afleitan leik eins og allt Aftureldingarliðið á fimmtudagskvöldið þegar liðin mættust í Valshöllinni, fór á kostum.

Lífið lék við Mosfellinga  í fyrri hálfleik. Þeir voru með níu marka forskot að honum loknum, 15:6. Valsmenn skoruðu aðeins eitt mark fyrstu tíu mínútur fyrri hálfleiks og eitt mark á síðustu tíu mínútunum og var það skorað þegar Valsmenn voru fimm á móti fjórum varnarmönnum Aftureldingar eftir að dómarar leiksins höfðu hreinsað þrjá leikmenn af velli með skömmu millibili.

Ekki voru upphafsmínútur síðari hálfleiks betri hjá Valsmönnum. Þeir virtust hafa hent hvíta handklæðinu inn í hringinn. Óskar Bjarni tók þriðja og síðasta leikhlé Vals eftir níu mínútur í stöðunni, 20:9.

Tíunda mark Vals var skoraði eftir 42 og hálfa mínútu. Vissulega segir mikið um frábæran varnarleik Aftureldingar og framúrskarandi markvörslu Davíð. Einnig lýsir það vonleysi og bjargarleysi Valsmanna í þessum leik. Þeir voru ekki á nokkurn hátt tilbúnir í einn eða neinn slag.

Taflið var tapað fyrir Val. Það var hreinlega átakanlegt að horfa á hið sterka Valslið standa ráðþrota á leikvellinum og láta sundurspila sig eins og um skokkklúbb væri að ræða en ekki handboltalið sem ber að taka alvarlega.

Afturelding 29:16 Valur opna loka
60. mín. Afturelding tapar boltanum
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert