Getur náð mjög langt

Aron Bjarnason skorar.
Aron Bjarnason skorar. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Aron Bjarnason, hinn tvítugi leikmaður ÍBV, fór mikinn í glæsilegum 4:0 sigri Eyjamanna gegn ÍA í fyrstu umferð Pepsi-deildar karla í knattspyrnu á Hásteinsvellinum á sunnudaginn. Hann skoraði eitt mark og lagði upp annað og gerði hvað eftir annað í leiknum usla í vörn Skagamanna.

Morgunblaðið fékk Hafstein Briem, liðsfélaga Arons, til að tjá sig um leikmanninn, en þeir léku saman með Fram áður en þeir skiptu yfir til ÍBV fyrir síðustu leiktíð.

„Ég kynntist Aroni hjá Fram á sínum tíma og sá þá strax að hann er með dúndurhæfileika og hefur svo sannarlega margt til brunns að bera. Aron er virkilega góður á boltann og hefur eiginleika sem ekki margir á Íslandi hafa. Hann getur auðveldlega farið framhjá mönnum, hefur sprengikraft og er sérlega fljótur með boltann,“ segir Hafsteinn Briem.

„Það sem gerir hann svo einstakan er að hann er svo fljótur að bera upp boltann og ef hann nær þessum stöðugleika sem margir hafa rætt um er lítið sem getur stöðvað hann. Eins og sást í leiknum á móti Skagamönnum er afar erfitt fyrir varnarmann að fá hann á sig á þessari fleygiferð.“

Aron fékk 2 M fyrir frammistöðu sína í leiknum en í umsögn Morgunblaðsins sagði til að mynda; „Aron fór á kostum í sókninni. Kantmaðurinn knái var í uppáhaldsstöðu sinni, á vinstri kantinum þar sem hann lék við hvurn sinn fingur.“

Nánar er rætt við Hafstein og fjallað um Aron í íþróttablaði Morgunblaðsins sem kom út í morgun en þar er að finna úrvalslið 1. umferðar deildarinnar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert