Þeir nýttu færin, ekki við

„Þeir nýttu sín færi en við ekki. Þar lá stóri munurinn þegar upp er staðið,“ sagði Arnar Gunnarsson, þjálfari Fjölnis eftir að lið hans tapaði 28:24, fyrir Selfossi í oddaleik um sæti í Olís-deildinni í handknattleik í Dalhúsum í kvöld.

„Við vorum tveimur til þremur mörkum yfir þegar nokkuð var liðið á síðari hálfleik. Þá fórum við illa með dauðfæri, hraðaupphlaup og fleira. Á sama tíma nýttu þeir sín færi. Mér fannst við hinsvegar alveg leika nógu vel til þess að vinna. Það tókst ekki. Ég óska Selfoss til hamingju,“ sagði Arnar sem þjálfaði hjá Selfoss áður en hann tók við Fjölni fyrir þremur árum auk þess sem bróðir hans, Stefán, er núverandi þjálfari Selfoss.

Arnar sagðist vera stoltur að liði sínu. Efniviðurinn sé fyrir og menn haldi áfram uppbyggingunni. Tapið munu engu breyta í þeim áformum.

Nánar er rætt við Arnar á meðfylgjandi myndskeiði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert