Stefán Darri leikur með Stjörnunni

Vilhjálmur Ingi Halldórsson, formaður meistaraflokksráðs Stjörnunnar, t.v. og Stefán Darri …
Vilhjálmur Ingi Halldórsson, formaður meistaraflokksráðs Stjörnunnar, t.v. og Stefán Darri Þórsson sem leikur með Stjörnunni næstu tvö árin. Ljósmynd/Stjarnan

Stefán Darri Þórsson hefur skrifað undir tveggja ára samning við handknattleikslið Stjörnunnar. Hann er 21 árs gamall og getur jafnt leikið sem leikstjórnandi og skytta. Hann er þriðji leikmaðurinn sem nýliðar Olís-deildarinnar krækja í á skömmum tíma.

Stefán Darri hefur allan sinn feril leikið með Fram og verið ein helsta driffjöður liðsins síðustu árin þrátt fyrir ungan aldur og var m.a. Íslandsmeistari með Fram vorið 2013 undir stjórn Einars Jónssonar, núverandi þjálfara Stjörnunnar.  Stefán Darri lék alla leiki Fram í deildarkeppninni og í úrslitakeppni Olís-deildar á nýliðnu keppnistímabili.

Stjörnumenn vinna í að styrkja lið sitt fyrir keppnina í Olís-deildinni á næstu leiktíð. Auk Stefáns Darra hafa línumaðurinn Garðar Benedikt Sigurjónsson og markvörðurinn Sveinbjörn Pétursson gengið til liðs við Garðabæjarliðið á síðustu vikum.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert