Þess vegna vil ég vera með þeim bestu

Aron Pálmarsson gerir varnarmönnum andstæðinganna oft gramt í geði með …
Aron Pálmarsson gerir varnarmönnum andstæðinganna oft gramt í geði með færni sinni. Ljósmynd/Melczer Zsolt

„Það sem ég átti við með fyrirsögninni, vonbrigði ef við vinnum ekki, var einfaldlega að það hafa ævinlega verið vonbrigði fyrir mig að vinna ekki Meistaradeildina í hvert skipti sem ég hef tekið þátt í úrslitahelginni,“ sagði Aron Pálmarsson, leikmaður ungverska meistaraliðsins Veszprém, í samtali við mbl.is í dag spurður út hvort hann hafi sett of mikla pressu á sig og samherjana með orðum sínum í samtali við m.a. þýska fjölmiðla á dögunum, að það yrðu vonbrigði ef Veszprém stæði ekki uppi sem sigurvegari í Meistaradeild Evrópu í handknattleik eftir leiki helgarinnar.

Veszprém hafnaði í öðru sæti keppninnar í fyrra og hefur síst lakara lið að þessu sinni, m.a. gekk Aron til liðs við liðið fyrir núverandi keppnistímabil. „Hér berjast fjögur bestu handboltaliðin í Evrópu og vitanlega erum við mættir til leiks í þeim tilgangi að vinna báða leikina og standa uppi sem sigurvegarar. Ef það tekst ekki verð ég mjög ósáttur því ég tel okkur eiga mjög góða möguleika á að vinna,“ sagði Aron en Veszprém mætir gamla liði hans, Kiel, í undanúrslitum á morgun. Sigurlið þeirrar viðureignar mætir sigurliðinu úr leik Frakklandsmeistara PSG og pólsku meistaranna Kielce, í úrslitaleik á sunnudaginn i Lanxess-Arena í Köln þar sem undanúrslitaleikirnir fara einnig fram í dag.

Viðureignir Veszprém og Kiel á síðustu árum hafa verið jafnar og skemmtilegar og úrslitin fallið öðru hvoru liðinu í skaut með litlum markamun. Aron telur að engin breyting verði þar á í leiknum á morgun. „Það ríkir mikil virðing innan beggja liða fyrir hvort öðru. Bæði lið leika skemmtilegan handbolta og leikirnir hafa einkennst af því fremur en að stríð hafi verið á milli manna. Ég ætla rétt að vona að svipað verði upp á teningnum á morgun,“ sagði Aron.

Aron segir að pressan á að fara í úrslitin og vinna keppnina sé síst minni á leikmönnum Kiel en Veszprém. Útlit er fyrir að Kiel vinni ekki þýska meistaratitilinn í ár í fyrsta sinn í fjögur ár. Liðið komst ekki í fjögurra liða úrslit þýsku bikarkeppninnar svo dæmi sé tekið. „Það er áfall fyrir Kiel að fara kannski titillaust í gegnum heilt keppnistímabil. Sú staðreynd hefur ekki blasað við liðinu árum saman. Vissulega hafa meiðsli sett strik í reikninginn og fyrir vikið er nokkuð um nýja leikmenn sem eru ekki eins reyndir og þeir sem liðið hefur haft á að skipa á síðustu árum.

Við hjá Veszprém höfum leikið vel til þessa á keppnistímabilinu og fyrir vikið tala margir um að við séum sigurstranglegri í viðureigninni við Kiel. Eflaust er eitthvað til í því en ég spái ekkert í það. Kiel er alltaf Kiel auk þess sem það hefur sýnt sig í gegnum tíðina að það er ekki alltaf best mannaða liðið sem stendur uppi sem sigurvegari.

Spurningin fyrir okkur er fyrst og fremst að hitta á mjög góðan leik þannig að sem flest gangi upp. Þá eigum við að vinna leikinn,“ sagði Aron.

Ungverskir fjölmiðlar hafa síst dregið úr væntingum fyrir hönd Veszprém-liðsins vegna leikjanna um helgina. Aron sagðist finna fyrir mikilli utanaðkomandi pressu, bæði í gegnum fjölmiðla í Ungverjalandi og eins frá mörgum landsmönnum. „Þetta er ein ástæða þess að ég vil vera í einu af fjórum bestu liðum Evrópu. Ég vil hafa þessa pressu á mér. Ég vil frekar vera í liði sem á að vinna allt heldur en hitt.  Þess utan þá er Veszprém lið Ungverja. Allir halda með okkur og mjög margir bíða eftir að liðið vinni Meistaradeildina. Ég er mjög ánægður að fá tækifæri til þess að vera þátttakandi í þessu,“ sagði  Aron Pálmarsson í samtali við mbl.is í Köln í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert