Kielce skellti óvænt stórliði PSG

Lijewski Krzysztof, einn leikmanna Kielce, kemst fram hjá Mikkel Hansen …
Lijewski Krzysztof, einn leikmanna Kielce, kemst fram hjá Mikkel Hansen og skorar eitt marka sinna í dag. AFP

Pólska meistaraliðið Vive Kielce tryggði sér í dag sæti í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu í handknattleik karla, sem fram fer á morgun, eftir sigur á PSG í undanúrslitaleik í Lanxess-Arena í Köln, 28:26. Kielce mætir annaðhvort Kiel eða Veszprém í úrslitaleik á sama stað á morgun en síðarnefndu liðin tvö mætast í hinni viðureign undanúrslitanna á eftir.

Úrslitin eru óvænt þar sem PSG er langdýrasta handknattleikslið sögunnar. Það hefur valinn mann í hverju rúmi og hefur getað náð í þá leikmenn sem forráðamönnum liðsins sýnist og notað til þess digra olíu- og gassjóði Katar.

Vitað var að lið Kielce væri sterkt en fæstir áttu von á að það kæmist í úrslitaleikinn í fyrsta sinn að þessu sinni þar sem hópur leikmanna liðsins er meiddur og annaðhvort lék ekki með af þeim sökum eða beit á jaxlinn.

Jafnt var að loknum fyrri hálfleik, 16:16, að viðstöddum nærri 20 þúsund áhorfendum í gríðarlegri stemmningu og gleði.

PSG hafði tögl og hagldir fyrstu 20 mínútur leiksins og hafði eins til þriggja marka forskot lengst af eða allt þar til hinir seigu leikmenn pólska liðsins jöfnuðu fyrst metin í 10:10 og aftur í 11:11 eftir 21 mínútu. Eftir það jafnt á öllum tölum til hálfleiks.

Pólska liðið hóf síðari hálfleik af sama krafti og það lauk fyrri hálfleik. Það skoraði fljótlega tvö mörk og náði yfirhöndinni í fyrsta skipti í leiknum, 18:16. Vörn Kielce var öflug á fyrstu tíu mínútum síðari hálfleiks. Thierry Omeyer, hinn þrautreyndi markvörður PSG, hélt sínum félögum inni í leiknum með frábærum kafla þar sem hann varði m.a. vítakast og skot úr opnum færum. Leikur hans á fyrstu tíu mínútum kom í veg fyrir að Kilece næði fjögurra til fimm marka forskoti. Eftir tíu mínútur í síðari hálfleik var munurinn enn tvö mörk, 19:17, fyrir Kielce. Eftir stutt leikhlé bitu leikmenn PSG í skjaldarrendur og sneru leiknum sér í hag með þremur mörkum í röð. Þegar síðari hálfleikur var hálfnaður voru Frakkarnir marki yfir, 20:19. Varnarleikur beggja liða var mikið betri en í fyrri hálfleik.

Leikmenn Kielce börðust áfram og víst er að á stundum þurftu þeir einnig að glíma við þýsku dómarana sem virtust á tíðum ekki vera sjálfum sér samkvæmir. Eftir að PSG komst tveimur mörkum yfir, 22:20, jafnaði Kielce á ný í 22:22 og aftur í 23:23 þegar hálf áttunda mínúta var eftir.

Manuel Strlek kom Kielce yfir, 25:24, þegar fjórar mínútur voru til leiksloka þegar hann skoraði eftir hraðaupphlaup. Mateusz Kus, leikmaður Kielce, fékk rautt spjald nokkrum mínútum síðar. Einum færri vann pólska liðið boltann og Michel Jurecki kom því tveimur mörkum yfir, 27:25, þegar innan við þrjár mínútur voru til leiksloka.

Aftur komst pólska liðið tveimur mörkum yfir, 27:25, þegar ein mínúta og 20 sekúndur voru til leiksloka þegar Strlek náði frákasti og skoraði. Nikola Karabatic braut á honum og fékk tveggja mínútna brottrekstur. Mótlætið fór í skapið á leikmönnum PSG og Igor Vori fauk út einn mínútu og tveimur sekúndum fyrir leikslok. Aftur skoraði Strlek, 28:25, áður en Frakkarnir klóruðu í bakkann með marki í blálokin.

Michel Jurecki skoraði fimm mörk fyrir Kilce og var markahæstur. Krzyzstof Lijewski var næstur með fjögur mörk ásamt Tobias Reichmann, Manuel Strlek og Uros Zorman. Daninn Mikkel Hanson var markahæstur hjá PSG með 10 mörk. Sergyi Onufryienko var næstur með fimm mörk.

Róbert  Gunnarsson var í leikmannahópi PSG í leiknum en lék ekkert með.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert