Alfreð er stoltur af sínu liði

Alfreð Gíslason, þjálfari Kiel, gefur sínum mönnum skipanir.
Alfreð Gíslason, þjálfari Kiel, gefur sínum mönnum skipanir. AFP

„Ég er stoltur af liði mínu. Leikmenn lögðu sig fram um að leika vel en því miður gerðum við nokkur mistök auk þess sem fleiri atriði féllu ekki með okkur á síðustu mínútum sem gerði út um vonir okkar á sigri að þessu sinni,“ sagði Alfreð Gíslason, þjálfari Kiel, eftir að lið hans tapaði, 29:27, fyrir PSG í leiknum um þriðja sæti í Meistaradeild Evrópu í handknattleik í Köln í dag. PSG skoraði þrjú síðustu mörk leiksins og tryggði sér sigurinn.

„Leikmenn mínir lögðu sig fram í báðum leikjum helgarinnar. Ég er ánægður með það hugarfar sem þeir sýndu. Okkur tókst að leika tvo afar góða leiki þótt okkur hafi ekki lánast að vinna. Eftir erfitt keppnistímabil á margan hátt getum við verið stoltir af því að ná fjórða sæti í þessari erfiðu keppni,“ sagði Alfreð Gíslason, þjálfari Kiel, sem einnig varð í fjórða sæti í þessari keppni með liðinu sínu fyrir ári. Þetta var í sjötta sinn á síðustu sjö árum sem Kiel, undir stjórn Alfreðs, tekur þátt í úrslitahelgi Meistaradeildar Evrópu í handknattleik.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert