Anton og Jónas í eldlínunni í Köln

Jónas Elíasson og Anton Gylfi Pálsson dæma leikinn um þriðja …
Jónas Elíasson og Anton Gylfi Pálsson dæma leikinn um þriðja sætið í Meistaradeild karla í handknattleik í Köln í dag. mbl.is/Golli

Íslenska dómaraparið Anton Gylfi Pálsson og Jónas Elíasson dæma  leikinn um þriðja sætið á milli THW Kiel og PSG í Meistaradeild Evrópu í handknattleik í Lanxess-Arena í Köln í dag. Þeir flauta til leiks klukkan 13.15. Þetta verður í fyrsta sinn sem Jónas dæmir leik í úrslitahelgi Meistaradeildar karla í handknattleik.

Anton Gylfi hefur hins vegar áður dæmt á úrslitahelginni. Það átti sér stað fyrir þremur árum þegar Kielce og Barcelona áttust við í leik um þriðja sætið. Kielce hafði betur. Þann leik dæmdi Anton Gylfi ásamt fyrrverandi samherja sínum í dómgæslunni, Hlyni Leifssyni.

Íslendingar koma einnig við sögu í báðum liðunum sem eigast við í leiknum um þriðja sætið. Alfreð Gíslason er þjálfari Kiel og Róbert Gunnarsson er liðsmaður PSG en viðureignin í dag verður sú næst síðasta hjá Róberti í búningi PSG.

Þess ber einnig að geta að Noka Serdarusic, þjálfari PSG, var þjálfari Kiel áður en Alfreð Gíslason tók við þjálfun liðsins 2008 eftir að Serdarusic var leystur frá störfum eftir 11 ára starf hjá félaginu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert