Aron og félagar töpuðu í vítakeppni

Stuðningsmenn Kielce höfðu ástæðu til að gleðjast yfir óvæntum og …
Stuðningsmenn Kielce höfðu ástæðu til að gleðjast yfir óvæntum og ævintýralegum sigri liðsins í Meistaradeild Evrópu í handknattleik í dag. AFP

Aron Pálmarsson og félagar í ungverska meistaraliðinu Veszprém töpuðu fyrir Vive Kielce í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu í handknattleik í dag eftir vítakeppni, 39:38, í Lanxess-Arena í Köln. Leikurinn var hreint ævintýralegur en stundarfjórðungi fyrir lok venjulegs leiktíma var Veszprém með níu marka forskot og allt stefndi í öruggan sigur.

Sú varð ekki raunin. Leikmenn pólska liðsins skoruðu níu mörk í röð og jöfnuðu metin og tókst loks að knýja fram framlengingu eftir að staðan var jöfn, 29:29. Enn var jafnt eftir framlenginu, 35:35. Þá var gripið til vítakeppni þar sem leikmenn Kielce skoruðu úr fjórum vítaköstum af fimm en leikmenn Veszprém úr þremur.

Þetta er í fyrsta sinn sem Vive Kielce verður Evrópumeistari í handknattleik karla. Liðið þótti koma á óvart í gær með sigri á PSG í undanúrslitum. Úrslit leiksins í dag, ekki síst eftir framvindu hans í 45 mínútur, er enn meira ævintýri fyrir Talant Dusjebaev og lærsveina hans.

Aron Pálmarsson skorað sex mörk í úrslitaleiknum auk eins marks í vítakeppninni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert