„Þetta var hreinn skandall“

Aron Pálmarsson t.h. í úrslitaleiknum í dag.
Aron Pálmarsson t.h. í úrslitaleiknum í dag. AFP

„Þetta var hreinn skandall af okkar hálfu. Við vorum ekki bara með unninn leik heldur vorum við hreinlega að rústa þeim,“ sagði Aron Pálmarsson, leikmaður ungverska liðsins Veszprém, í samtali við mbl.is í Köln, eftir að liðið tapaði ævintýralegum úrslitaleik í Meistaradeild Evrópu í handknattleik í dag fyrir pólska liðinu Vive Kielce. Vítakeppni þurfti til að knýja fram úrslit leiksins sem voru 39:38. Fimmtán mínútum fyrir leikslok var Veszprém með níu marka forskot, 28:19, og ekkert benti til annars en öruggs sigurs liðsins.

Annað kom á daginn og pólska liðið jafnaði metin, 29:29, í venjulegum leiktíma svo framlengja varð og enn var jafnt að framlengingu lokinni, 35:35.

„Níu mörkum yfir áttum við að vinna og vonleysið skein úr augum leikmanna Kielce. En skyndilega breyttist eitthvað sem ég get ekki skýrt enn þá. Ég hreinlega næ því ekki hvernig okkur tókst að klúðra þessum leik,“ sagði Aron og var mjög sleginn og það eðlilega. „Ég hélt að við myndum vinna í framlengingunni, ekki síst þegar við urðum manni fleiri, annað kom á daginn. Við vorum lélegir í undirtölunni. Þegar komið er í vítakeppni þá ræður heppnin för meira en annað.

Ég veit ekki alveg hvernig mér líður. Ég er hálfdofinn eftir þennan skandal,“ sagði Aron Pálmarsson við mbl.is fyrir stundu.

Lengra viðtal verður við Aron í Morgunblaðinu í fyrramálið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert