Grétar á leið til Selfyssinga

Grétar Ari í leik með Haukum.
Grétar Ari í leik með Haukum. mbl.is/Eva Björk

Markvörðurinn Grétar Ari Guðjónsson leikur að öllum líkindum með nýliðum Selfoss í Olís-deild karla í handbolta á næstu leiktíð.

Grétar Ari, sem verður tvítugur í næsta mánuði, hefur að mestu leyti verið varamarkvörður hjá Haukum en Giedrius Mork­unas er aðalmarkvörður Íslandsmeistaranna úr Hafnarfirði. Grétar lék þó stórt hlutverk þegar Haukar höfðu betur gegn Aftureldingu, 3:2, í úrslitaeinvígi liðanna um Íslandsmeistaratitilinn.

Gangi samningar eftir mun Grétar verða lánaður til Selfyssinga en í samtali við mbl.is sagði hann að ekkert væri staðfest en líklegt væri að af skiptunum yrði.

Áður höfðu skytturnar Árni Steinn Steinþórs­son og Ein­ar Sverris­son gengið til liðs við nýliðana og samkvæmt heimildum mbl.is hefur Hvols­vell­ing­ur­inn Guðni Ingvars­son einnig ákveðið að semja við Sel­foss.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert