Komust vel frá sínu

Jónas Elíasson og Anton Gylfi Pálsson
Jónas Elíasson og Anton Gylfi Pálsson mbl.is/Golli

Handknattleiksdómararnir Anton Gylfi Pálsson og Jónas Elíasson dæmdu viðureign Frakklandsmeistara PSG og þýsku meistaranna THW Kiel um þriðja sætið í Meistaradeild Evrópu í handknattleik karla í Köln í gær.

Þetta var í fyrsta sinn sem Jónas dæmdi í leik um verðlaunasæti í Meistaradeildinni en Anton Gylfi dæmdi leikinn um þriðja sæti í Meistaradeildinni fyrir þremur árum milli Barcelona og Kielce ásamt þáverandi samherja sínum, Hlyni Leifssyni.

Ekki var annað að sjá en að Antoni og Jónasi tækist vel upp í leiknum í gær. Þeir fengu hörkuleik tveggja öflugra liða og létu talsvert til sín taka, tóku erfiðar ákvarðanir en létu leikinn þó „fljóta“ vel í þeirri gríðarlegu stemningu sem var í Lanxess-Arena í Köln að viðstöddum rétt tæplega 20 þúsund áhorfendum. PSG fór með sigur af hólmi, 29:27.

Næsta stóra verkefni þeirra félaga sem liggur fyrir er að dæma í handknattleikskeppni Ólympíuleikanna í Ríó í ágúst. Hvort þeir fá leiki í undankeppni HM í júní liggur ekki fyrir ennþá.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert