Frábær endir að komast á stórmót

Ágúst Jóhannsson ræðir við Einar Jónsson.
Ágúst Jóhannsson ræðir við Einar Jónsson. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Ágúst Þór Jóhannsson stýrir íslenska kvennalandsliðinu í handknattleik í tveimur síðustu leikjum sínum við stjórnvölinn hjá liðinu þegar liðið mætir Frökkum og Þjóðverjum í lokaleikjum liðsins í undankeppni EM 2016 sem fram fer í Svíþjóð í desember á þessu ári. Andstæðingar morgundagsins eru Frakkar og Ágúst líst vel á það verkefni.  

„Við erum að fara að leika við tvö sterkustu liðin í riðlinum og tvær heimsklassaþjóðir í handknattleik. Við gerum okkur grein fyrir að þetta er erfið og krefjandi verkefni, en það er skemmtileg áskorun á ná í óvænt úrslit og tryggja okkur inn í lokakeppni EM,“ sagði Ágúst í samtali við mbl.is í dag. 

„Æfingarnar hafa verið mjög góðar í vikunni og það hefur gengið vel að koma nýjum leikmönnum inn í hlutverk sín. Leikmenn liðsins munu leggja sig allar fram í verkefnið og ef við náum upp góðri stemmningu á morgun þá erum við til alls vísar,“ sagði Ágúst um undirbúning liðsins.

„Ef við náum upp þéttum varnarleik og erum agaðar í okkar aðgerðum í sóknarleiknum þá eru okkur allir vegir færir. Við þurfum að koma í veg fyrir að þær fái mörg mörk úr hraðaupphlaupum með skynsömum sóknarleik. Það væri draumur að ná í tvo punkta sem myndu líklega fara langleiðina með að tryggja okkur sæti í lokakeppninni,“ sagði Ágúst aðspurður um hvað hann legði áherslu á í leiknum á morgun. 

Ánægður með tíma minn með liðið 

Ágúst hefur ákveðið að láta af störfum eftir undankeppnina og leikirnir við Frakka og Þjóðverja eru þar af leiðandi tveir síðustu leikir hans sem þjálfari íslenska liðsins. Ágúst vonast til þess að skilja við liðið í lokakeppni stórmóts. 

„Ég hef heilt yfir verið mjög ánægður með gang mála hjá liðinu. Við komumst undir minni stjórn inn á HM í Brasilíu árið 2011 þar sem við unnum þrjá sterka sigra gegn Svartfjallalandi, Þýskalandi og Kína. Við höfnuðum í 12. sæti á HM í Brasilíu sem er besti árangur liðsins á stórmóti. Síðan tókum við þátt í EM í Serbíu árið 2012 og stóðum okkur með prýði þar,“ sagði Ágúst um tíma sinn sem þjálfari íslenska liðsins. 

„Það væri frábært að skila liðinu af sér með því að tryggja sæti á EM og við munum gera allt sem í okkar valdi stendur til þess að ná í þau stig sem til þarf. Þetta hefur verið góður tími og það hefur verið gaman að vinna með leikmönnum, aðstoðarmönnum mínum og starfsfólki HSÍ. Ég tók þessa ákvörðun fyrir þó nokkru síðan og er búinn að melta þetta. Ég mun ekki stýra liðinu í lokakeppninni ef við komumst þangað og ég mun bara styðja liðið á pöllunum í staðinn,“ sagði Águst enn fremur þegar hann var beðinn um að líta yfir farinn veg. 

„Valshöllin hefur reynst okkur vel í gegnum tíðina og við höfum til að mynda lagði Spánverja, Úkraínu og Tékka að velli þar. Með góðum stuðningi áhorfenda þá er allt hægt. Við munum gefa allt sem við eigum í leikinn og við verðum bara að sjá til hversu langt það fleytir okkur,“ sagði Ágúst aðspurður að því hvort íslenska liðið ætti raunhæfan möguleika gegn ógnarsterku liði Frakklands. 

Ágúst Þór Jóhannsson og Einar Jónsson.
Ágúst Þór Jóhannsson og Einar Jónsson. mbl.is/Golli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert