Sunna til liðs við Halden

Sunna Jónsdóttir í leik með íslenska landsliðinu.
Sunna Jónsdóttir í leik með íslenska landsliðinu. mbl.is/Ómar Óskarsson

Sunna Jónsdóttir, landsliðskona í handknattleik, hefur skrifað undir tveggja ára samning við norska úrvalsdeildarliðið Halden. Samningurinn tekur gildi 1. júlí. „Ég er ánægð með að samningur er í höfn. Það hefur tekið sinn tíma að ljúka málinu þar sem það hefur talsvert verið í gangi að undanförnu,“ sagði Sunna við Morgunblaðið í gær. „Ég trúi því að ég sé að taka rétt skref á mínum handboltaferli með þessum samningi.“

Sunna lék með Skrim-Kongsberg á síðustu leiktíð. Liðið féll úr norsku úrvalsdeildinni í vor og um leið var Sunna laus mála hjá liðinu.

„Ég hlakka til að takast á við þetta hjá Halden eftir erfiðan en lærdómsríkan vetur,“ sagði Sunna en mikill hugur er í forráðamönnum Halden. Nýtt íþróttahús er í byggingu auk þess sem nokkrir nýir leikmenn hafa gengið til liðs við kvennalið félagsins á síðustu dögum auk Sunnu.

Halden hafnaði í sjöunda sæti norsku úrvalsdeildarinnar á síðasta keppnistímabili og vilja menn þar á bæ færast skrefi nær efstu liðunum á næstu leiktíð. „Það er mikilll hugur í forráðamönnum félagsins og starfsumhverfið er allt til fyrirmyndar,“ sagði Sunna ennfremur í samtali við Morgunblaðið.

Nánar er fjallað um félagsskipti Sunnu í íþróttablaði Morgunblaðsins sem kom út í morgun. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert