Haukar fá mikinn liðstyrk

Guðmundur Árni Ólafsson í leik með íslenska landsliðinu gegn Portúgal …
Guðmundur Árni Ólafsson í leik með íslenska landsliðinu gegn Portúgal í janúar á þessu ári. mbl.is/Árni Sæberg

Hægri hornamaðurinn Guðmundur Árni Ólafsson skrifaði í dag undir samning við Hauka sem eru ríkjandi deildar- og Íslandsmeistarar i handknattleik karla.

Guðmundur Árni lék með Selfossi og Haukum hér heima áður en hann hélt til Danmerkur haustið 2011, en þar lék hann fyrst um sinn með Bjerr­ing­bro/​Silk­eborg og síðan með Mors/Thy. Þá hefur Guðmundur Árni leikið 13 landsleiki og skoraði í þeim leikjum 25 mörk.  

Samningur Guðmundar Árna við Mors/Thy rann út síðastliðið vor og hafa erlend lið sem og Selfoss og Haukar borið víurnar í hann síðan í vor. Nú er það orðið ljóst að Guðmundur Árni mun leika í hægra horni Hauka næsta vetur. 

Guðmundur Árni lék með Haukum frá í tvö tímabil frá 2009 til 2011 og vann þrefalt fyrra tímabilið sem hann lék á Ásvöllum.

Leonharð Þorgeir Harðarson sem er í U-20 ára landsliðinu verður lánaður frá Haukum. Ekki hefur verið gengið frá því en Grótta hefur sýnt áhuga samkvæmt heimildum mbl.is. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert