Naumur sigur gegn Rússum

U20-liðið.
U20-liðið. mbl.is/Styrmir Kári

U20-landslið karla í handknattleik vann í kvöld eins marks sigur, 32:31, á Rússum í fyrsta leik liðsins á Evrópumótinu í handknattleik. Staðan í hálfleik var 15:13, Íslandi í vil.

Mótið er haldið í Danmörku og íslensku strákarnir eru í riðli með Rússlandi, Spáni og Slóveníu. Tvö efstu lið riðilsins fara áfram í milliriðil.

Leikurinn í kvöld var æsispennandi. ísland hafði undirtökin lengstum en Rússar voru ólseigir og unnu sig hægt og bítandi inn í leikinn. Þegar um 50 sekúndur voru eftir var staðan 31:30 fyrir Ísland og strákarnir okkar með boltann.

Markvörður Rússa varði skot frá Ómari Inga Magnússyni rúmlega 20 sekúndum fyrir leikslok en Hákon Daði Styrmisson gerði mjög vel í að ná frákastinu í vinstra horninu.

Þaðan barst boltinn yfir í hægra hornið, þar sem Óðinn Ríkharðsson skoraði sigurmarkið um 15 sekúndum fyrir leikslok. Engu máli skipti þó að Rússar skoruðu mark á lokasekúndunni, sigurinn var Íslands.

Markaskorarar Íslands: Ómar Ingi Magnússon 8, Óðinn Þór Ríkharðsson 7, Elvar Örn Jónsson 6, Sigtryggur Daði Rúnarsson 3, Aron Dagur Pálsson 3, Arnar Freyr Arnarsson 2, Birkir Benediktsson 1, Ýmir Örn Gíslason 1

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert