Annar sigur U20 landsliðins á EM

U20 landsliðið.
U20 landsliðið. mbl.is/Styrmir Kári

Íslenska karlalandsliðið í handbolta, skipað leikmönnum 20 ára og yngri, vann í dag góðan 23:19 sigur á Slóvenum í B-riðli Evrópumótsins sem haldið er í Danmörku. Ísland hefur þar með unnið báða leiki sína í riðlinum.

Staðan í hálfleik var 10:7, Íslandi í vil. Strákarnir voru betri í dag og léku á köflum mjög góðan varnarleik. Slóvenar voru t.a.m. einungis búnir að skora tvö mörk þegar fyrri hálfleikur var rúmlega hálfnaður.

Ísland komst í 16:11 og virtist vera að stinga Slóvena af en þá kom slæmur kafli og Slóvenar minnkuðu muninn í 18:17.

Strákarnir okkar voru hins vegar mjög sterkir á lokakaflanum og lönduðu góðum sigri. Ísland er þar með búið að tryggja sér sæti í milliriðlinum. Liðið fær frí á morgun en mætir Spánverjum í lokaleik riðilsins á sunnudaginn.

Mörk Íslands: Óðinn Þór Ríkharðsson 5, Hákon Daði Styrmisson 3, Arnar Freyr Arnarsson 3, Elvar Örn Jónsson 3, Sturla Magnússon 2, Sigtryggur Rúnarsson 2, Kristján Örn Kristjánsson 1, Aron Dagur Pálsson 1, Ómar Ingi Magnússon 1, Birkir Benediktsson 1, Leonharð Harðarson 1.

Grétar Ari Guðjónsson varði 15 skot í markinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert