Vilja framlengja við Aron

Aron Pálmarsson í leik með ungverska meistaraliðinu Veszprém.
Aron Pálmarsson í leik með ungverska meistaraliðinu Veszprém. © Melczer Zsolt

Aron Pálmarsson, landsliðsmaður í handknattleik, er að hefja sitt annað tímabil með ungverska meistaraliðinu Veszprém en Aron gekk í raðir félagsins frá þýska liðinu Kiel fyrir síðustu leiktíð.

Aron átti mjög góðu gengi að fagna með ungverska liðinu á síðasta tímabili. Hann varð ungverskur meistari með því, vann bikarkeppnina og Austur-Evrópudeildina og komst alla leið í úrslit í Meistaradeildinni þar sem liðið tapaði fyrir pólska liðinu Kielce en úrslitin réðust í vítakeppni. Aron var útnefndur besti leikmaður úrslitahelgarinnar á „Final Four“ í Meistaradeildinni og það í annað sinn á ferlinum.

„Það er bara allt komið á fullt hjá okkur. Ungverska deildin er byrjuð og nú erum við með í henni frá upphafi og Austur-Evrópudeildin byrjar í næstu viku. Svo hefst Meistaradeildin í næsta mánuði og maður getur eiginlega ekki beðið eftir að hún byrji,“ segir Aron í samtali í  Morgunblaðinu í dag.

Veszprém er ekki með neinum smáliðum í riðli í Meistaradeildinni en með liðinu í riðli eru: Barcelona, Paris SG, Kiel, Flensburg, Bjerringbro-Silkeborg, Wisla Plock og Schaffhausen.

„Við erum nokkrir í liðinu sem komum ekki til með að spila mikið í ungversku deildinni til að byrja með. Hópurinn hjá okkur er orðinn gríðarlega stór og ég held að það séu eitthvað um þrjátíu leikmenn á launaskrá. Liðið er búið að fá flesta þá leikmenn sem spila með unglingalandsliði Ungverjalands og þeir fá að spreyta sig í deildinni,“ segir Aron.

Sjá viðtal við Aron Pálmarsson í heild í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert