Gönuhlaup eða óstjórnlegur metnaður Wilbeks?

Ulrik Wilbek.
Ulrik Wilbek. AFP

Uppsögn Ulriks Wilbek, íþróttastjóra danska handknattleikssambandsins, í gær kom ekki á óvart. Eftir fréttir síðustu daga var ljóst að enginn grundvöllur var lengur fyrir samstarfi hans og Guðmundar Þórðar Guðmundssonar, landsliðsþjálfara ólympíumeistara Dana. Trúnaðarbrestur hafði orðið þeirra í milli eftir að danskir fjölmiðlar upplýstu á síðasta föstudag að Wilbek hefði farið á bak við Guðmund og fundað með útvöldum hópi leikmanna danska landsliðsins eftir þriðja leik danska landsliðsins á Ólympíuleikunum í Ríó. Á þeim fundi mun Wilbek hafa boðist til þess að segja Guðmundi umsvifalaust upp störfum. Leikmenn tóku boði hans ekki. Boðið var ítrekað daginn eftir að danska landsliðið hafði unnið gullverðlaunin undir stjórn Guðmundar, kannski í hálfkæringi, segja einhverjir.

Þegar fyrri fundurinn fór fram hafði danska landsliðið tapað kvöldið áður fyrir Króötum en áður unnið tvær fyrstu viðureignir sínar. Sæti í átta liða úrslitum handknattleikskeppninnar var í höfn.

Hermt er að fundurinn hafi verið haldinn að frumkvæði fámenns hóps leikmanna landsliðsins vegna óánægju þeirra með störf Guðmundar. Heimildir Morgunblaðsins herma að þessi meinta óánægja sé stórlega ýkt. Leikmenn hafi staðið við bakið á Guðmundi þótt vissulega séu alltaf skiptar skoðanir í stórum hópi íþróttamann sem eru fullir sjálfstrausts.

Undarleg tímasetning „tilboðs“

Fáheyrt er að þjálfara landsliðs sé sagt upp í miðju stórmóti. Fá ef nokkur dæmi eru til þess. Því kom „tilboð“ Wilbeks til leikmanna mjög á óvart þegar til þess spurðist í síðustu viku. Enn meiri undrun sætir að Wilbek hafi ítrekað „tilboð“ sitt við útvalda leikmenn daginn eftir sigurinn í Ríó.

Hvað gekk Wilbek til? Það veit sennilega enginn annar en hann sjálfur. Líklegasta skýringin er að óstjórnlegur metnaður hans hafi ráðið för. Þegar ljóst var að danska landsliðið væri komið í átta liða úrslit þurfti bara að vinna einn leik til viðbótar til þess að leika um verðlaun, sem Wilbek tókst aldrei á Ólympíuleikum með danska karlalandsliðið. Ef illa gengi gæti hann alltaf sagt að hann hefði bjargað því sem bjargað varð stöðu sem upp kom vegna óánægju leikmanna með þjálfarann.

Wilbek er afar vinsæll og lítt umdeildur eftir frábæran árangur, fyrst með kvennalandsliðið og síðar karlalandsliðið. Hefði áætlun hans á ÓL gengið eftir hefði hann hlotið litla gagnrýni fyrir að víkja Guðmundi frá störfum í miðri keppni, þjálfara sem hefur legið undir harðri gagnrýni í dönskum fjölmiðlum nánast frá fyrsta degi í starfi. Enginn grætur Íslending, sagði skáldið.

Frá því að Guðmundur tók við starfi landsliðsþjálfara af Wilbek vorið 2014 hafði samstarf þeirra gengið vel eftir því sem næst verður komist. Wilbek réði miklu um að Guðmundur var ráðinn eftirmaður hans þegar Wilbek óskaði eftir að segja starfi sínu lausu og einbeita sér að því að vera íþróttastjóri handknattleikleikssambandsins. Wilbek hafði sinnt starfi íþróttastjóra samhliða þjálfun landsliðsins um tveggja ára skeið. Reyndar var til íþróttastjórastarfsins stofnað fyrir Wilbek svo hann gæti dregið saman seglin en áfram haft fingur á púlsinum eftir framúrskarandi feril sem landsliðsþjálfari til 16 ára samtals.

Var varaður við

Heimildir Morgunblaðsins herma að margir hafi varað Guðmund við þegar hann tók við sem landsliðsþjálfari að erfitt gæti reynst að hafa fyrrverandi landsliðsþjálfara sem samstarfsmann eða yfirmann. Sömu heimildir herma að Guðmundur hafi verið fullvissaður af Wilbek sjálfum áður en til ráðningarinnar kom að hann teldi sig geta auðveldlega skilið á milli landsliðsþjálfarans og íþróttastjórans. Þegar allt kemur til alls virðist Wilbek hins vegar ekki hafa getað setið á strák sínum. Alvarlega sló í brýnu milli Guðmundar og Wilbeks á EM í Póllandi í byrjun þessa árs þegar í ljós kom að Wilbek hafði skráð sig inn á mótið sem aðstoðarþjálfari. Hann ætlaði sem slíkur að taka sæti þáverandi aðstoðarmanns Guðmundar, Tomas Svensson, þegar Svensson veiktist. Guðmundur mun þá hafa barið í þá barið í borðið og sett Wilbek stólinn fyrir dyrnar.

Eins þykir ýmsum sem ráðning Henriks Kronborg sem aðstoðarþjálfara í vor í stað Svensson lykti sem afskipti Wilbeks af störfum Guðmundar. Kronborg var lengi aðstoðarmaður Wilbeks með karlalandsliðið.

Nánar er fjallað um málið í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.

Guðmundur Guðmundsson fagnar eftir að hafa tryggt Dönum sitt fyrsta …
Guðmundur Guðmundsson fagnar eftir að hafa tryggt Dönum sitt fyrsta ólympíugull í karlaflokki í handknattleik. AFP
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert