Næstum því eins og að vinna Hauka

Ágúst Elí Björgvinsson varði vel í marki FH.
Ágúst Elí Björgvinsson varði vel í marki FH. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

„Það er alltaf gaman að vinna ÍBV. Leikir liðanna undanfarin ár hafa verið eins og grannaslagir. Þeir slá ekki leikjum FH og Hauka við, en koma þar næst að mínu mati. Við tryggðum okkur mikilvæg tvö stig með þessum sigri og ég er mjög ánægður með það,“ sagði Ágúst Elí Björgvinsson, markvörður FH, eftir 36:30 sigur liðsins gegn ÍBV í fjórðu umferð Olísdeildar karla í handknattleik í dag.  

„Þetta var mjög hraður leikur og hart barist. Það er mikill rígur milli þessara liða og liðin lögðu allt undir. Við höfðum sem betur fer betur. Við spiluðum þennan leik vel taktískt séð að mínu mati. Svo náðum við að spila góða vörn sem var mjög mikilvægt,“ sagði Ágúst Elí um lykilinn að sigri FH. 

Ágúst Elí varði 17 skot í leiknum og átti stóran þátt í sigri liðsins í dag. Ágúst Elí var ekki alveg sammála blaðamanni mbl.is og taldi sig mögulega hafa varið fleiri en 17 skot.

„Varði ég bara 17 skot, jæja. Mér tókst að verja vel og verja á mikilvægum augnablikum í leiknum. Það er mjög góð tilfinning að spila fyrir aftan þessa öflugu vörn og gaman að geta lagt sín lóð á vogarskálina til þess að tryggja tvö stig,“ sagði Ágúst Elí sem var allt í senn ósammála mati blaðamanns á vörðum skotum hans, hógvær og mjög ánægður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert