Ljónin fögnuðu heimasigri

Alexander Petersson og Guðjón Valur Sigurðsson glaðir í bragði.
Alexander Petersson og Guðjón Valur Sigurðsson glaðir í bragði.

Þýska meistaraliðið Rhein-Neckar Löwen vann Celje Lasko með minnsta mun, 31:30, á heimavelli í kvöld í B-riðli Meistaradeildar Evrópu í handknattleik. Aðeins eru þrír dagar síðan liðið gerði jafntefli í sömu keppni á útivelli við Pick Szeged á útivelli. 

Alexander Petersson og Guðjón Valur Sigurðsson skoruðu þrjú mörk hvor fyrir Ljónin í leiknum. 

Staðan var jöfn í hálfleik, 15:15. Snemma í síðari hálfleik voru leikmenn Löwen komnir með fjögurra marka forskot, 22:18. Slóvenarnir lögðu ekki árar í bát, þvert á móti þeir hertu róðurinn og komust tveimur mörkum yfir, 27:25, þegar 12 mínútur voru til leiksloka. Leikmenn Celje misstu taktinn og heimamenn náðu yfirhöndinni þótt á ýmsu gengi á lokakaflanum. M.a. voru leikmenn Löwen tveimur færri á vellinum um skeið. 

Celje átti möguleika á að jafna muninn í 31:31, þegar innan við ein mínúta var eftir. Síðasta sókn liðsins gekk ekki upp. Dæmd var lína á hægri hornamann liðsins. Löwen fékk boltann og hélt sjó þær 40 sekúndur sem eftir voru og tókst að fagna fyrsta sigri sínum í Meistaradeildinni á þessari leiktíð. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert