Mistök af minni hálfu undir lokin

Jóhann Birnir Ingvarsson, leikmaður FH, skýtur að marki Aftureldingar í …
Jóhann Birnir Ingvarsson, leikmaður FH, skýtur að marki Aftureldingar í leik liðanna í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Jóhann Birgir Ingvarsson, leikstjórnandi FH, var að sjálfsögðu svekktur eftir 27:26 tap gegn Aftureldingu í kvöld í fyrsta leik 5. umferðar Olís-deildar karla í handbolta í kvöld. Fyrri hálfleikurinn var mjög kaflaskiptur á meðan leikurinn var býsna jafn í þeim síðari.

„Þetta voru tvö hörkulið að spila fínan handbolta en við vorum með alltof mikið af töpuðum boltum og vorum kæruleysir,“ sagði Jóhann Birgir um leik liðanna í kvöld. 

FH-ingar voru mest með fimm marka forskot í fyrri hálfleik og var Jóhann svekktur við að gera ekki betur úr þeirri stöðu. 

„Það hefur gerst hjá okkur eftir leikhlé að við missum dampinn. Við þurfum að bæta úr því og koma á milljón aftur. Það er ekkert gefins að vera fimm mörkum yfir í handbolta. Við erum með ungt lið og við erum að læra, þetta gæti verið reynsluleysi."

FH-ingar fengu tækifæri til að jafna leikinn úr síðustu sókn leiksins, en skot Jóhanns fór í vörnina og þaðan á Sölva Ólafsson, markmann Aftureldingar. 

„Þetta voru mistök af minni hálfu og það var allt undir í þessu seinasta skoti," sagði Jóhann. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert