Snorri og Ásgeir á sigurbraut

Snorri Steinn Guðjónsson t.v. hefur farið vel af stað á …
Snorri Steinn Guðjónsson t.v. hefur farið vel af stað á leiktíðinni í frönsku 1. deildinni og hefur alveg jafnað sig á erfiðum meiðslum sem hann varð fyrir síðla á síðasta vetri. mbl.is/Golli

Landsliðsmennirnir Ásgeir Örn Hallgrímsson og Snorri Steinn Guðjónsson voru í stórum hlutverkum að vanda hjá Nimes í kvöld þegar liðið vann nýliða Saran, 39:31, á útivelli í annarri umferð frönsku 1. deildinni í handknattleik. Nimes hefur þar með unnið tvo fyrstu leiki sína á nýju keppnistímabili. 

Snorri Steinn skoraði átta mörk fyrir Nimes, þar af eitt úr vítakasti og Ásgeir Örn skoraði fjögur mörk úr fimm skotum. 

Markvörðurinn Stephen Nielsen var í sigurliði Aix þegar liðið lagði Créteil, 33:22. Stephen kom ekki mikið við sögu en spreytti sig í í tveimur vítaköstum án árangurs auk þess sem hann fékk nokkrar mínútur undir lok leiksins en varði hvorugt þeirra skota sem komu á markið. 

Geir Guðmundsson skoraði tvö mörk þegar Cesseon-Rennes tapaði fyrir  Dunkerque, 27:25, á útivelli. Guðmundur Hólmar Helgason skoraði ekki mark fyrir Cesson-liðið sem hefur tapað tveimur fyrstu leikjum keppnistímabilsins. Ragnar Óskarsson er aðstoðarþjálfari Cesson-Rennes en hann gerði garðinn frægan í franska handboltanum sem leikmaður Dunkerque árum saman. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert