Hrun Hauka heldur áfram

Arnar Birkir Hálfdánsson, leikmaður Fram, sækir að Adam Hauki Baumruk …
Arnar Birkir Hálfdánsson, leikmaður Fram, sækir að Adam Hauki Baumruk í vörn Hauka í leiknum á Ásvöllum í kvöld. mbl.is/Eggert

Íslandsmeistarar Hauka byrja Olís-deild karla í handbolta hörmulega en Haukar töpuðu í kvöld gegn sprækum liði Fram að Ásvöllum, 41:37. Fram hefur þar með fimm stig að loknum fimm umferðum en Haukar eru með tvö stig eftir fimm leiki.

Fyrri hálfleikur fór reyndar vel af stað fyrir meistarana sem komust í 6:2. Á þessum kafla var einfaldlega stillt upp í flugbraut fyrir Adam, sem skoraði með þrumuskotum. Líklega hafa Haukar haldið að ungt lið Fram myndi brotna en það var öðru nær.

Gestirnir bitu hressilega frá sér og komust svo yfir í stöðunni 12:13. Framarar áttu í engum vandræðum með að opna ömurlega vörn Hauka og skora ítrekað af línu og úr hornum. Haukar voru að reyna hina frægu “ÍBV-vörn”, þar sem hávaxinn leikmaður kemur langt fram á völlinn til að trufla sóknarleik andstæðingana. Sú vörn virkaði engan veginn og er þar vægt til orða tekið.

Fram hélt undirtökunum út hálfleikinn og leiddi að honum loknum með tveimur mörkum, 20:18. Eins og tölurnar gefa til kynna, þá var varnarleikurinn ekki í hávegum hafður á Ásvöllum fyrstu 30 mínútur leiksins.

Seinni hálfleikur fór vel af stað hjá Haukum, sem  komust fljótlega yfir. Aftur börðu Framarar í brestina og náðu forystunni. Varnarleikur Hauka hélt áfram að vera sprenghlægilegur og gestirnir léku við hvern sinn fingur.

Það þarf í raun ekkert að fjall meira um þennan leik. Fram var miklu betra liðið og verðskuldaði sigurinn fyllilega. Arnar Birkir Hálfdánarson var frábær í liði Fram  og hornamennirnir Þorgeir og Andri léku sér að Morkunas allan leikinn. Guðmundur Pálsson er svo sannarlega á réttri leið með þetta efnilega lið.

Adam Haukur Baumruk lék vel í sókninni hjá Haukum en var jafn glórulaus og allir aðrir leikmenn Hauka í vörninni. Það er eitthvað mikið að hjá Íslandsmeisturunum og ef menn fara ekki að sýna örlítinn karakter, verður þetta langur vetur á Ásvöllum.

Gunnar Magnússon, þjálfari karlaliðs Hauka í handknattleik, hefur ekki alltaf …
Gunnar Magnússon, þjálfari karlaliðs Hauka í handknattleik, hefur ekki alltaf verið blíður á manninn á hliðarlínunni á þessari leiktíð. mbl.is/Ófeigur Lýðsson
Haukar 37:41 Fram opna loka
60. mín. Þorsteinn Gauti Hjálmarsson (Fram) skoraði mark
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert