Menn eiga að hafa gaman af handbolta

Guðmundur Pálsson.
Guðmundur Pálsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Guðmundur Pálsson, þjálfari Fram var kátur eftir óvæntan en sanngjarnan sigur sinna manna gegn Íslandsmeisturum Hauka. Lokatölur urðu 41:37 en leikið var að Ásvöllum.

„Ég sagði í byrjun móts að við værum komnir til að gera okkar allra besta og ef menn leggja sig fram eins og þeir hafa gert til þessa, þá er bara ýmislegt hægt,“ sagði Guðmundur í samtali eftir leik.

„Sóknin gekk 100% upp hjá okkur. Við vorum búnir að liggja yfir þessu og sjá hvar veikleikar Haukanna eru og þegar Arnar Birkir dettur í þennan ham, þá er erfitt að stoppa hann. Hann var frábær í kvöld. Þeir reyndu að koma með mann á hann en þá vorum við bara með svar við því. Við vorum bara búnir að undirbúa okkur mjög vel.“ 

Allir leikmenn Fram sem tóku þátt í leiknum skiluðu góðu framlagi og lögðu sitt á vogarskálarnar í þessum glæsilega sigri.

„Já, hiklaust. Markvarslan var í heildina ekkert upp á tíu en hún kom á mikilvægum augnablikum. Við misstum aldrei trúna og strákarnir voru alltaf tilbúnir að gefa sig 100% í verkefnið.“

Fram hefur byrjað mótið vel en þeim var spáð slöku gengi í vetur. Guðmundur gerir sér grein fyrir því að langt mót sé framundan og hann sé með óreynt lið í höndunum.

„Já já, svo koma auðvitað einhver meiðsli og annað slíkt. Við þurfum bara að vera rólegir og mæta í alla leiki til að gera okkar allra besta. Það þarf að hafa gaman af því að spila handbolta, enda er þetta bara áhugamál. Við erum bara í áhugamennsku og ef menn hafa ekki gaman af þessu, eiga þeir að gera eitthvað annað,“ sagði Guðmundur að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert