Menn eru í sumarfríi í hausnum

Gunnar Magnússon hefur ástæðu til að vera brúnaþungur þessa dagana.
Gunnar Magnússon hefur ástæðu til að vera brúnaþungur þessa dagana. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

„Þetta eru bara hrikaleg vonbrigði, að sjá hugarfarið í leiknum. Við klukkum þá ekki í 60 mínútur. Það er bara sorglegt að segja þetta því að í þessari viku þegar við vorum að undirbúa leikinn, þá hélt ég að menn væru búnir að taka til í hausnum á okkur,“ sagði Gunnar Magnússon, þjálfari Hauka eftir 41:37 tap gegn Fram í Olís-deild karla í handbolta.

Menn ætluðu að svara fyrir þessa slæmu byrjun á mótinu og vera með blóð á tönnum en svo stöndum við vörn hérna í 60 mínútur og fáum varla fríkast. Þetta er bara ekki boðlegt.

Við byrjum vel og náum forskoti [6:2, innsk.blm] og þá missum við hausinn í einhverjar tvær mínútur og þeir eru komnir inn í leikinn á augabragði. Ég er óánægður með hugarfarið hjá drengjunum, það verður bara að segjast eins og er

Við erum bara ekki mættir í deildina. Menn eru ennþá í sumarfríi í hausnum og halda að þetta komi af sjálfu sér. Það sést best á varnarleiknum. Það er sama hvort við spilum 5-1, 6-0 eða 5+1, við náum ekki að koma við þá. Markvarslan var þá í kjölfarið slök en það er reyndar ekki auðvelt að standa fyrir aftan svona vörn.

Haukar mæta sænska liðinu Alingsås í forkeppni EHF-bikarsins í næstu viku og Gunnar er sammála blaðamanni að svona frammistaða dugi skammt gegn Svíunum.

„Já, við eigum ekki „break“ ef við spilum svona. Við þurfum að bretta upp ermarnar og snúa þessu við. Við erum fullfærir um það en við þurfum að taka þessa viðvörun mjög alvarlega og leggja mikið á okkur,“ sagði daufur Gunnar Magnússon að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert