Okkur líður vel í toppbaráttu

Steinunn Björnsdóttir í þann mund að skora eitt fimm marka …
Steinunn Björnsdóttir í þann mund að skora eitt fimm marka sinn í leiknum við Fylki í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Vörnin small saman hjá okkur undir lok fyrr hálfleiks og þá skildu leiðir,“ sagði Steinunn Björnsdóttir, leikmaður Fram, eftir átta marka sigurliðsins á Fylki, 28:20, í Olís-deild kvenna í Fylkishöllinni í kvöld.

„Í byrjun síðari hálfleik þá tókst okkur að fylgja lokakafla fyrri hálfleiks eftir og bæta við forskotið. Þar með var grunnurinn lagður að sigrinum,“ sagði Steinunn sem lék afar vel í leiknum, jafnt í vörn sem sókn en hún skoraði fimm mörk af línunni og vann auk þess vítaköst.

„Framan af fyrri hálfleik þá náði Fylkisliðið að opna miðja vörn okkar og fá auðveld skot að markinu. Okkur tókst að setja undir þann leka í síðari hálfleik. Þá jókst munurinn og um leið urðum við rólegri í okkar leik og þar með fækkaði mistökunum.“

Fram-liðið hefur unnið þrjá af fyrstu fjórum leikjum sínum í deildinni auk þess að gera eitt jafntefli. Liðið er þar með komið í efsta sæti, stigi á undan Val sem á leik til góða gegn Stjörnunni á sunnudaginn. „Okkur líður vel í toppbaráttu og ætlum okkur að vera áfram í henni.

Hvert stig skiptir máli í löngu móti auk þess sem markatalan getur haft sitt að segja þegar upp verður staðið. Við vorum ákveðnar í að fá ekki mörg mörk á okkur í kvöld og það tókst. Guðrún Ósk var góð í markinu og vörnin var fín í síðari hálfleik en það vantaði talsvert upp á hana í fyrri hálfleik,“ sagði Steinunn Björnsdóttir, landsliðskona og leikmaður Fram.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert