Besti sóknarleikur okkar á tímabilinu

Ari Magnús Þorgeirsson með boltann í leiknum gegn Haukum í …
Ari Magnús Þorgeirsson með boltann í leiknum gegn Haukum í kvöld. mbl.is/Ófeigur

Ari Magnús Þorgeirsson, vinstri skytta Stjörnunnar, var skiljanlega svekktur eftir 33:28 tap gegn Haukum í Olís-deild karla í handbolta í kvöld. 

Stjarnan var tveimur mörkum yfir þegar rúmar tíu mínútur voru eftir en þá skoruðu Haukar sjö í röð og voru úrslitin aldrei spurning eftir það. 

„Við vorum tveim mörkum yfir, þeir skipta um vörn og Einar, gamli liðsfélagi okkar, fer í markið og ver allt. Við vorum líka að spila lélega vörn og það er erfitt að elta Haukana þegar þeir eru fjórum mörkum yfir."

Þrátt fyrir tapið, var Ari nokkuð sáttur við spilamennskuna en hefði á sama tíma viljað sjá sína menn spila betri vörn. 

„Mér fannst hún fín, þetta er besti sóknarleikurinn okkar á þessu tímabili, fyrir leikinn vorum við búnir að fá á okkur fæst mörk svo 33 mörk á okkur er alltof mikið. Að sjálfsögðu skiptir vörnin rosalega miklu máli og ef hún er ekki í lagi, þá tapar þú."

Haukar voru í fallsæti fyrir leikinn en Ari segir þá vera með mjög sterkt lið og taflan gefi ekki rétta mynd af þeirra styrk. 

„Haukar eru með gífurlega sterkt lið, það vita það allir, þó að taflan sýni það ekki. Þeir eru með sex stig núna en þetta er mjög sterkt lið."

Einar Jónsson, þjálfari Stjörnunnar, var ekki á varamannabekk sinna manna í kvöld þar sem hann var í leikbanni. Ari segir það ekki hafa skipt miklu máli. 

„Nei, alls ekki. Við vitum hvað við eigum að gera. Hann var búinn að leggja leikinn upp svo það skiptir voðalega litlu máli," sagði Ari. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert