Gísli tók málin í sínar hendur

Halldór Jóhann Sigfússon, þjálfari FH.
Halldór Jóhann Sigfússon, þjálfari FH. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég var ekkert allt of bjartsýnn þegar við vorum þremur mörkum undir og lítið eftir af leiknum. Hlutirnir voru að falla með þeim og mér leist ekki á blikuna. Við vorum hins vegar aðeins klókari undir lok leiksins og náðum að innbyrða sigur,“ sagði Halldór Jóhann Sigfússon, þjálfari FH, eftir 29:28 sigur liðsins gegn Fram í Olísdeild karla í handbolta í kvöld. 

„Fram er með gott lið og þeir hefðu alveg eins getað farið með sigur af hólmi eins og við. Mér leið ofboðslega vel þegar ég sá Gísla Þorgeir [Kristjánsson] setja boltann í netið og tryggja okkur sigurinn. Gísli Þorgeir var búinn að vera frábær í seinni hálfleiknum, hann tók yfir leikinn og átti það skilið að skora sigurmarkið. Það var gríðarlega sterkt að ná í þessa tvö stig og þetta var sætur sigur,“ sagði Halldór Jóhann um þróun leiksins.  

FH hóf leikinn af miklum krafti, en missti móðinn eftir því sem leið á leikinn. Leikmenn FH tóku sig síðan taki undir lok leiksins og lönduðu sigrinum. Halldór Jóhann segir litla breidd í leikmannahópnum gera það að verkum að erfitt sé að halda fullum dampi í spilamennsku liðsins í heilan leik.

„Við eigum í erfiðleikum með að leika af fullum krafti allan leikinn einfaldlega vegna þess að við höfum ekki á að skipa jafn mikilli breidd og undanfarin ár. Við erum bara með tíu útispilara í leikmannahópnum þessa stundina og þar á meðal eru mjög ungir leikmenn. Við söknum krafta Ásbjörn Friðrikssonar og getum ekki rúllað liðinu eins mikið og ég myndi vilja,“ sagði Halldór Jóhann þegar hann var beðinn um að útskýra sveiflurnar í spilamennsku FH í kvöld. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert