Fjórða tap Gróttu í röð í ótrúlegri dramatík

Finnur Ingi Stefánsson skoraði 12 mörk fyrir Gróttu en brást …
Finnur Ingi Stefánsson skoraði 12 mörk fyrir Gróttu en brást bogalistin á ögurstundu. mbl.is/Golli

Grótta tapaði sínum fjórða leik í röð í Olís-deild karla í handknattleik þegar Selfoss kom í heimsókn. Úr varð gríðarlegur baráttuleikur þar sem nýliðarnir fóru með dramatískan eins marka sigur af hólmi, 29:28. Finnur Ingi Stefánsson, sem hafði skorað átta mörk úr vítum fyrir Gróttu í leiknum, klúðraði víti í fyrsta sinn þegar leiktíminn rann út og Selfoss fagnaði ótrúlegum sigri.

Rétt fyrir upphafsflautið gekk sveit Selfyssinga inn í húsið með trommur og læti og kom sér fyrir á pöllunum. Það virtist heldur betur kveikja í gestunum og þeir náðu undirtökunum fljótlega. Þeir voru skrefinu framar þangað til Grótta jafnaði í fyrsta sinn í 7:7, en þá fór að skilja á milli.

Selfoss gerði sér lítið fyrir og skoraði sjö mörk í röð og breyttu stöðunni í 14:7 á meðan allt hrökk í baklás hjá Gróttu. Heimamenn náðu þó vopnum sínum á ný þegar leið á hálfleikinn og þeir skoruðu fimm mörk gegn einu það sem eftir lifði hans.

Þegar flautað var til hálfleiks var staðan því 15:12 fyrir Selfossi, en hjá Grótta hafði Finnur Ingi Stefánsson skoraði sex mörk af vítalínunni í fyrri hálfleik einum.

Selfyssingar héldu frumkvæðinu eftir hlé og voru framan af með þriggja marka forskot. Um miðbik hálfleiksins fór Grótta að sækja á og hasar færðist í leikinn. Munurinn var kominn niður í eitt mark, 22:21, og Selfyssingurinn Eyvindur Hrannar Gunnarsson fékk að líta rauða spjaldið fyrir að fara í andlit andstæðings.

Líkt og eftir sókn Gróttu í fyrri hálfleik þá náðu Selfyssingar áttum og náðu fljótlega fjögurra marka forskoti á ný. Heimamenn létu sér hins vegar ekki segjast, sóttu hart að andstæðingnum og Finnur Ingi minnkaði muninn í eitt mark þegar mínúta var eftir af leiknum.

Dramatíkin var ótrúleg. Leonharð Þorgeir Harðarson fiskaði víti þegar leiktíminn rann út og Finnur Ingi fékk tækifæri á vítalínunni. Eftir átta mörk af vítalínunni í leiknum þrumaði hann hins vegar í þverslá á ögurstundu og Selfoss fangaði svakalegum sigri, 29:28.

Selfoss komst með sigrinum upp fyrir Gróttu, hefur nú átta stig en Grótta er með sjö og hefur ekki unnið leik síðan þann 19. september, eða í fimm umferðum í röð.

Einar Sverrisson var markahæstur hjá Selfossi með átta mörk en hjá Gróttu var Finnur Ingi Stefánsson atkvæðamestur og skoraði ellefu mörk, þar af átta af vítalínunni.

Fylgst var með gangi mála í beinni textalýsingu hér á mbl.is.

Grótta 28:29 Selfoss opna loka
60. mín. Leonharð Þorgeir Harðarson (Grótta) fiskar víti Og tíminn rennur út!! Finnur Ingi hefur skorað átta mörk af vítalínunni í leiknum. Hvað gerir hann nú??
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert