Erum betri í dag en við vorum í fyrra

Stefán Arnarson, þjálfari Fram, var ánægður en sagði að sigurinn …
Stefán Arnarson, þjálfari Fram, var ánægður en sagði að sigurinn hefði mátt vera mun stærri. mbl.is/Eggert

„Ég er mjög ánægður með sjö marka sigur gegn sterku Valsliði. Við leggjum áherslu á að byrja leikina vel, það tókst núna. Við vorum 3-4 mörkum yfir í fyrri hálfleik. Svo bættum við í og að lokum var þetta þægilegur sigur," sagði Stefán Arnarson, þjálfari Fram eftir öruggan 26:19 sigur á Val í Olís-deild kvenna í handbolta en Fram komst í 6:1 í upphafi leiks.

„Mér fannst við hafa yfirhöndina í þessum leik, allir sem horfðu á hann sáu það. Ég er ánægður með liðið. Allir voru að spila góða vörn, markvarslan var frábær og það voru allir að spila vel. Þeir sem komu af bekknum voru að standa sig,“ sagði Stefán.

Markaskorun Fram dreifðist ágætlega í leiknum og margir lögðu sitt af mörkum. Stefán er ánægður með breiddina í liðinu.

„Við erum með góða breidd og sterka liðsheild, það er að skila þessum sigri. Markmiðið okkar er ekki að hafa markahæsta leikmanninn, við viljum að sem flestir skora og það er að ganga eftir í byrjun móts."

Framarar eru sem stendur á toppi deildarinnar og er Stefán vissulega ánægður með það. Það eru hins vegar 16 leikir eftir og margt getur breyst. Það veit Stefán manna best.

„Við erum betri í dag en við vorum í fyrra. Það er hins vegar október og 16 leikir eftir en við lítum ágætlega út í dag," sagði Stefán að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert