Saga liðsins þennan veturinn

Sverre Jakobsson, þjálfari Akureyrar, var sár og svekktur eftir tap …
Sverre Jakobsson, þjálfari Akureyrar, var sár og svekktur eftir tap liðsins gegn Val í dag. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

„Það er ofboðslega svekkjandi að fá ekkert út úr þessum leik, sér í lagi vegna þess að þetta er ekki í fyrsta skipti sem við töpum í jöfnum leik. Strákarnir lögðu mikla vinnu í þennan leik og hefðu átt skilið að fá í minnsta lagi eitt stig og hefðu hæglega getað náð í tvö stig,“ sagði Sverre Jakobsson, þjálfari Akureyrar, í samtali við mbl.is eftir 24:22 tap liðsins gegn Val í Olísdeild karla í handbolta í dag. 

Akureyri er á botni deildarinnar með tvö stig eftir átta umferðir, en liðið hefur beðið ósigur í þremur leikjum með einu marki og að þessu sinni tapaði liðið með tveimur mörkum eftir jafnan og spennandi leik. 

„Ég er mjög ánægður með spilamennsku strákanna í þessum leik eins og heilt yfir í vetu. Þetta hefur verið saga liðsins í vetur, það er að það vanti herslumuninn og við töpum leikjunum með litlum mun. Við höfum verið að leika vel í vetur og einungis einn leikur þar sem við lentum á vegg. Hlutirnir hljóta að fara að falla með okkur og við hljótum að fara að fá heppnina með á okkar band,“ sagði Sverre sár og svekktur. 

„Það er hins vegar engan bilbug á okkur að finna. Við erum staðráðnir í að snúa þessu slæma gengi. Við sýnum mikinn karakter í þessum leik þegar við snúum taflinu við eftir slæma byrjun og sýnum að það skortir ekki sigurvilja í liðið. Við verðum bara að halda áfram að undirbúa okkur vel fyrir næstu verkefni, leika jafn vel og við gerðum á löngum köflum í þessum leik og þá fara stigin að detta í hús,“ sagði Sverre um framhaldið hjá Akureyri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert