Valur vann Akureyri eftir mikla spennu

Alexander Júlíusson, leikmaður Vals, sækir að marki Akureyrar í leik …
Alexander Júlíusson, leikmaður Vals, sækir að marki Akureyrar í leik liðanna í dag. mbl.is/Golli

Valur bar sigurorð af Akureyri, 24:22, þegar liðin mættust í lokaleik áttundu umferðar Olísdeildar karla í handbolta í Valshöllinni í dag. Anton Rúnarsson var markahæstur í liði Vals með sex mörk, en Mindaugas Dumcius var atkvæðamestur í liði  gestanna norðan sömuleiðis með sex mörk.  

Valur hóf leikinn af miklum krafti og komst mest fimm mörkum yfir í upphafi leiksins. Akureyri náði hins vegar að þétta vörn sína um miðbik fyrri hálfleiks og þar á bakvið var Tomas Olason í miklu stuði. 

Akureyri náði hægt og bítandi að minnka forskot Vals og staðan var jöfn, 11:11, þegar liðin gengu til búningsherbergja í hálfleik. Jafnræði var síðan með liðunum í seinni hálfleik og liðin skiptust á að hafa forystuna. 

Valsmenn voru hins vegar sterkari á lokakafla leiksins og góð innkoma Sigurðar Ingibergs Ólafssonar og markvörslur Hlyns Morthens áttu þátt í að tryggja sigur Vals. Samvinna Antons Rúnarsson og Orra Freys Gíslasonar var einkar góð í þessum leik, en það var línusending Antons sem skapaði þrjú af fjórum mörkum Orra Freys í leiknum. 

Þá fiskaði Orri Freyr þrjú vítaköst í leiknum og í aðdraganda þess hafði Anton fundið Orra Frey inni á línunni með frábærum línusendingum. Josip Juric átti einnig fínan leik fyrir Val í þessum leik, en hann skoraði fimm mörk og skapaði þó nokkur mörk fyrir samherja sína með stoðsendingum sínum. 

Valur skaust upp í annað sæti deildarinnar með þessum sigri, en liðið er með 10 stig og er fjórum stigum á eftir Aftureldingu sem trónir á toppi deildarinnar. Akureyri er hins vegar með tvö stig á botni deildarinnar.

Valur 24:22 Akureyri opna loka
60. mín. Leik lokið Leik lokið með 24:22 sigri Vals.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert