„Þetta kom mér á óvart“

Guðmundur Guðmundsson.
Guðmundur Guðmundsson. AFP

Guðmundur Þórður Guðmundsson, þjálfari danska karlalandsliðsins, segist undrast þá ákvörðun hornamannsins Anders Eggert að gefa ekki kost á sér í landsliðið sem leikur á HM í Frakklandi í janúar.

Guðmundur reiknaði með að geta nýtt krafta hornamannsins og vítaskyttunnar á HM en í dag fékk hann þau skilaboð frá Eggert að hann gæfi ekki kost á sér.

„Þetta kom mér á óvart. Ég ræddi við hann fyrir tveimur vikum og þá sagðist hann vera klár en nú segist hann ekki hafa orku í að spila með landsliðinu,“ sagði Guðmundur við dönsku sjónvarpsstöðina TV2.

„Hann útskýrði þetta fyrir mér í morgun og ég verð bara að taka því. Það er ekkert annað að gera. Ég get ekki þvingað menn til að spila með landsliðinu,“ sagði Guðmundur.

Anders Eggert hefur spilað 159 leiki með danska landsliðinu og hefur í þeim skorað 540 mörk, en hann leikur með þýska liðinu Flensburg.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert