„Einhver endurnýjun þurfti að eiga sér stað“

Alexander Petersson og Snorri Steinn Guðjónsson eru hættir í íslenska …
Alexander Petersson og Snorri Steinn Guðjónsson eru hættir í íslenska landsliðinu. mbl.is/Golli

Landsliðshópurinn sem Geir Sveinsson og aðstoðarmenn hans, Óskar Bjarni Óskarsson og Ragnar Óskarsson, tefla fram gegn Tékklandi og Úkraínu í undankeppni EM 2018 karla í handbolta er nokkuð frábrugðinn því sem íþróttaáhugamenn hafa átt að venjast á umliðnum árum.

Fjórir þrautreyndir landsliðsmenn eru ekki í hópnum. Alexander Petersson og Snorri Steinn Guðjónsson gefa ekki lengur kost á sér og þá voru þeir Róbert Gunnarsson og Vignir Svavarsson ekki valdir í þetta verkefni.

Fram kom hjá Geir á mbl.is í gær að hann hefði verið í sambandi við línumennina Róbert og Vigni. Þeir hefðu því vitað af þessari ákvörðun og Geir segir liðsvalið ekki hafa neina þýðingu varðandi næstu verkefni.

Spurður hvenær hann hafi vitað að krafta Alexanders og Snorra væri ekki hægt að nýta sagðist Geir ekki hafa reiknað með Alexander en Snorri hafi tilkynnt sér ákvörðun sína fyrir skömmu. „Varðandi Alexander var þetta ljóst í mínum huga frá því hann gaf ekki kost á sér gegn Portúgölum í maí síðastliðnum. Út frá samtalinu sem ég átti við hann þá mat ég stöðuna sem svo að hann væri hættur með landsliðinu. Ég átti samtöl við Snorra reglulega frá því í ágúst og vissi að það gæti farið í báðar áttir. Mér var því alveg ljóst að Snorri myndi kannski hætta en í síðustu viku tilkynnti hann mér endanlega ákvörðun. Það kom mér því ekki á óvart að þeir skyldu ákveða að láta staðar numið,“ sagði Geir við Morgunblaðið í gær.

Geir ræðir nánar um landsliðshópinn í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert